Útlit er fyrir að um 50% af upprunalegu Stoke Holding, hlutafélagi sem sett var saman í kringum kaupin á enska knattspyrnuliðinu Stoke haustið 1999, muni hafi náðst til baka í haust þegar nýir eigendur félagsins greiða tvær milljónir punda samkvæmt ákvæðum í kaupsamningi frá því fyrir tveimur árum.

Kaupþing stóð upphaflega að verkefninu og setti saman hópinn sem keypti Stoke. Keyptur var 70% hlutur fyrir um átta milljónir punda. Gunnar Þór Gíslason var í forsvari fyrir rekstrinum á félaginu og stefnan var sett á úrvalsdeildina innan fimm ára.

Guðjón Þórðarson var ráðinn framkvæmdastjóri en verr gekk að koma liðinu upp úr annarri deild en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Það tókst svo ekki fyrr en í þriðju tilraun en um síðustu helgi náði félagið síðan að vinna sér sæti í úrvalsdeildinni ensku þar sem liðið tryggir sér strax 30 milljónir punda fyrir sjónvarpsrétt.

Á sjötta hundrað manns keyptu á sínum tíma hlut í Stoke Holding.

Fyrir tveimur árum seldi Stoke Holding allan sinn hlut í Stoke til Peter Coach fyrir um tvær milljónir punda. Auk 30 milljóna punda fyrir sjónvarpsréttinn fær Stoke svokallaðar fallhlífargreiðslur í tvö ár, falli það aftur niður í 1. deild.

Til lengri tíma litið fær Stoke því að minnsta kosti um 60 milljónir punda fyrir það eitt að komast í úrvalsdeildina. Þegar Stoke Holding var selt var ákvæði í kaupsamningnum að tækist nýjum eigendum að koma því upp í úrvalsdeild greiddu þeir Stoke Holding 2 milljónir punda til viðbótar.

Þar með hefur Stoke Holding fengið til baka fjórar milljónir punda af þeim átta milljónum sem félagið var keypt á. Þetta segir þó ekki alla söguna því á þeim sjö árum sem félagið var í eigu hlutafélagsins voru lagðir miklir fjármunir í rekstur, leikmannakaup og annað sem tengist rekstri knattspyrnuliðs.

Að sögn Gunnars Þórs skiptast þessar tvær milljónir punda niður á hluthafa í samræmi við eignarhlut þeirra en 10 stærstu hluthafarnir stóðu að baki 75% hlutafjárins.

„Þetta hefur alla vega reynst miklu betri fjárfesting en kaup í deCode, sem þótti heitur fjárfestingarkostur á svipuðum tíma,“ segir Gunnar Þór. Að sama skapi má segja að íslensku fjárfestana hafi þrotið örendið of snemma.

Gunnar Þór segir að ákvörðunin um sölu á Stoke Holding hafi þó verið rétt því ekki reyndist vilji innan hluthafahópsins til að setja meira fjármagn inn í félagið til að styrkja leikmannahópinn og koma því alla leið í höfn. Hefðu menn á hinn bóginn tekið þá stefnu hefðu þeirhorft fram á rausnarlega ávöxtun núna.