Fyrstu gjalddagar krónubréfanna hafa nú litið dagsins ljós án nokkurra teljanlegra áhrifa á gengið en í upphafi árs voru yfirvofandi gjalddagar í septembermánuði nefndir sem mögulegir áhrifavaldar til skarprar veikingar krónunnar. Að sögn Jóns Bjarka Bentssonar, sérfræðings hjá greiningu Glitnis, hafa gjalddagarnir enn sem komið er haft lítil áhrif á gengið. Að mati Jóns Bjarka er ástæða þess að frá miðju ári hefur hlaupið mikill vaxtarkippur í útgáfu krónubréfa og er upphæð nýrrar útgáfu nánast sú sama og upphæð þeirra bréfa sem á gjaldaga eru. Útflæði vegna gjalddaga í haust nemur 53,5 milljörðum króna en innflæði vegna nýrrar útgáfu 55,5 milljarðar. Þannig jafnast áhrifin út. Jón Bjarki útilokar ekki að ný útgáfa undanfarinna vikna sé að miklum hluta til framlenging á þeim bréfum sem eru á haustgjalddaga.

Að sögn Jóns Bjarka virðist sem þessi þróun verði til þess að krónan komi til með að standast þá þolraun sem gjalddagar krónubréfanna eru. "Það er hins vegar of langt gengið að horfa á atburði undanfarna vikna og álykta í kjölfarið að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af krónubréfunum framar. Áhugi erlendra aðila á bréfunum mun að öllum líkindum dragast saman með lækkandi vaxtastigi sem samkvæmt okkar spám gerist strax í upphafi næsta árs. Því lítur út fyrir að aðstæður verði aðrar í september á næsta ári þegar krónubréf fyrir 80 milljarða falla á gjalddaga. Þá gætum við séð töluverða veikingu krónunnar," segir Jón Bjarki Bentsson.