Nýjustu kortaveltutölur benda til þess að einkaneysla hafi staðið í stað, eða jafnvel skroppið lítillega saman nú febrúar frá sama tíma í fyrra, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans jókst heildarvelta debetkorta um 2,5% í febrúar frá fyrra ári, og hvað kreditkort varðar var aukningin 6,7%. Að raungildi dróst hins vegar kortavelta einstaklinga saman um tæp 0,1% milli ára nú í febrúar, en kortaveltan mæld með þessum hætti hefur oftast sterka fylgni við þróun einkaneyslu. Er þetta álíka þróun og verið hefur á síðustu mánuðum. Þannig dróst kortavelta einstaklinga saman um 0,3% að raungildi milli ára í janúar, og í desember síðastliðnum nam samdrátturinn á þennan mælikvarða tæplega 1,0%.

Í Morgunkorninu segir að veruleg breyting hafi orðið á raunþróun kortaveltu einstaklinga undanfarið ár. Þannig jókst veltan á þennan mælikvarða um 4,1% á fyrsta fjórðungi ársins 2012, en síðan hefur dregið jafnt og þétt úr vextinum og var hann einungis 0,2% á síðasta fjórðungi ársins. Þessi þróun helst í hendur við hægari aukningu kaupmáttar og minna fjárhagslegt svigrúm heimilanna, samfara því að áhrif af fyrirfram úttekt séreignarsparnaðar og öðrum sértækum aðgerðum hafa fjarað út.

Þessar tölur koma einnig heim og saman við mat Seðlabankamanna um að vöxtur einkaneyslu sé hægari þessa dagana en áður var spáð. Þannig lækkaði Seðlabankinn spá sína fyrir vöxt einkaneyslu 2013 úr 2,9% í 2,5% í spá sinni í febrúar síðastliðnum. Kortaveltutölurnar fyrir fyrstu mánuði ársins benda raunar til að hagur heimilanna þurfi að vænkast talsvert á komandi mánuðum til að jafnvel hin endurskoðaða spá Seðlabankans gangi eftir.