Dýragarðurinn í finnska bænum Ahtari undirbýr sig nú að skila tveimur pöndum, sem finnsk stjórnvöld fengu að láni frá Kína, eftir að fjármálaráðuneytið hætti við að veita honum 5 milljónir evra í styrk eða sem nemur um 775 milljónum króna.

Finnsk stjórnvöld fengu pöndurnar tvær, Lumi og Pyry, afhentar árið 2018 en þær komu að láni til fimmtán ára frá Kína. Hefð er fyrir því að kínversk stjórnvöld sendi pandabirni til vinaríkja til að efla tengsl.

Lumi og Pyry hafa verið helsta aðdráttarafl dýragarðsins á undanförnum árum en hann telur sig ekki geta staðið undir rekstrarkostnaði að óbreyttu eftir að ríkisstjórnin hætti við framangreint framlag. Dýragarðurinn hyggst taka endanlega ákvörðun um pöndurnar í lok febrúar.

Ýmsir þingmenn hafa gagnrýnt kostnaðinn og telja hann ekki réttlætanlegan, m.a. vegna þess að vaxtakostnaður ríkisins er að aukast verulega sem og útgjöld til varnarmála.

Ville Skinnari, ráðherra þróunarsamvinnu og utanríkisviðskipta, sagði í samtali við Iltalehti að hann telji að ákvörðun um að skila pandabjörnunum fyrir lok lánstímans muni ekki hafa áhrif á tengsl Finnlands og Kína.

© epa (epa)