Það virðist benda til að vöxtur einkaneyslu á nýliðnu ári hafi verið sá mesti að minnsta kosti í áratug, hér á landi. Þetta bendir Greining Íslandsbanka á og vísar meðal annars í tölur Seðlabankans um kortaveltu, en að þeirra mati gefa þær tölur nokkuð skýr merki um hvert einkaneyslan stefnir.

„Tölur desembermánaðar lágu fyrir á föstudag, og þær sýndu enn og aftur myndarlegan vöxt í kortaveltu Íslendinga, eða sem nemur um 8,9% að raunvirði (m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis). Þrátt fyrir talsverðan vöxt var hann þó í hóflegri kantinum m.v. árið í heild sinni. Þannig jókst kortavelta einstaklinga um 11,2% að raunvirði á árinu 2016 frá fyrra ári, en það er mesti vöxtur hennar á ársgrundvelli síðan 2005. Bendir þetta til þess að einkaneysla hafi vaxið verulega á síðastliðnu ári, sem rímar ágætlega við síðustu spá okkar um 8,1% einkaneysluvöxt, sem yrði þá mesti vöxtur hennar frá 2005,“ segir í greiningu Íslandsbanka.

Strauja kortið í útlöndum

Íslendingar eru jafnframt orðnir gjarnari á það að fara til útlanda - og var því vöxtur á kortaveltu Íslendinga í útlöndum talsvert meiri en innanlands, eða sem nemur um 45% að raunvirði á milli ára á móti 5,2%. „Þessi gríðarlegi vöxtur í kortaveltu í útlöndum er síður en svo nýr af nálinni, og hefur vægi slíkrar veltu stóraukist,“ er tekið fram í greiningunni.

Kortavelta Íslendinga erlendis skýrir því stærri og stærri hluta í þeim vexti sem hefur verið á heildarkortaveltu landsmanna. Kortavelta Íslendinga erlendis hefur ekki aukist eins mikið og á nýliðnu ári. „Þar má augljóslega sjá hvernig framlag kortaveltu í útlöndum hefur stóraukist, og hefur í raun aldrei verið meira en á nýliðnu ári. Hluti af skýringunni er eðlilega mikil fjölgun í utanlandsferðum Íslendinga á árinu (+19%) en einnig skýrist þetta af stórauknum viðskiptum Íslendinga við erlendar netverslanir,“ er einnig tekið fram í greiningunni.

Aukin samkeppni smásöluverslunar innanlands

Íslensk smásöluverslun fær stóraukna samkeppni við erlendar netverslanir. „Þetta á einkum og sér í lagi við í fata- og skóverslun, en eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan hefur vöxtur í slíkri verslun verið mun hægari síðustu ár en vöxtur í annarri smásöluverslun. Er þetta einnig áhugavert í ljósi þeirrar fjölgunar sem verið hefur á erlendum ferðamönnum hér á landi, sem t.a.m. versluðu fatnað fyrir 5,2 ma. kr. með greiðslukortum sínum á nýliðnu ári sem hlýtur að hafa haft eitthvað að segja fyrir veltu í slíkum verslunum. Velta má fyrir sér hvort að fataverslun hafi í raun dregist saman hér á landi á undanförnum árum ef ekki væri fyrir erlenda ferðamenn,“ er einnig tekið fram.