Hægfara hagvöxtur verður næstu mánuði, samkvæmt leiðandi hagvísi Analytica. Hann hækkaði áfram í október og er þetta fjórði mánuðurinn í röð sem vísitalan hækkar. Í tilkynningu frá Analytica segir að hagvísirinn bendi til þess að hagvöxtur á þessu árið verði á bilinu 1-2%.

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum.

Vísitalan er reiknuð á grundvelli sömu aðferðafræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur eru reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD.