Greining Íslandsbanka telur útlit fyrir lognmollu á hlutabréfamarkaði í það minnsta fram undir lok júlí. Viðskipti gærdagsins á hlutabréfamarkaði námu um 3 milljörðum króna og lækkaði Icex-15 um 1,53%. Af 15 félögum í vísitölunni lækkuðu 13 en ekkert félag á markaðnum hækkaði.

Mest lækkun var á Actavis eða 4,44% og bankarnir lækkuðu um 1-2%. Eftir miklar hækkanir í upphafi árs hefur hægt á markaðnum að undanförnu og dagar komið líkt og í gær þar sem að talsverðar lækkanir hafa átt sér stað.

Greining Íslandsbanka segir að margt bendi til þess að fjárfestar kunni að þurfa að sýna þolinmæði á næstu mánuðum. Síðustu uppgjör félaga á fyrsta ársfjórðungi eru að renna í hlað og heilt á litið hafa uppgjörin frekar verið undir væntingum þó svo að afkoma og arðsemi sé almennt mjög góð. Framundan eru sumarmánuðir en hlutabréfamarkaðurinn skiptir jafnan í hægagang á þeim árstíma. ICEX-15 hefur hækkað um 19,4% frá áramótum og teljum við sem fyrr að vænt hækkun yfir árið verði 25-30% sem útilokar þó ekki talsverðar sveiflur á hlutabréfaverði það sem eftir er ársins. Gengi flestra félaga er nálægt verðmati og vart hægt að tala um augljós kauptækifæri á markaðnum í dag. Það er því útlit fyrir lognmollu á hlutabréfamarkaði fram undir júlílok, er uppgjör á öðrum ársfjórðungi taka að birtast.

Innan skamms má síðan vænta aukins framboðs á hlutafé sem kann að halda aftur af hækkunum og jafnvel leiða til lækkana, þó svo að þær verði hugsanlega ekki jafn skarpar og síðla hausts í fyrra.

Mikil umframeftirspurn var eftir bréfum í útboði Mosaic á dögunum og framundan er sala á bréfum í Símanum auk þess sem að Actavis mun bjóða út nýtt hlutafé ásamt eigin bréfum upp á um 20 ma.kr. samtals. Við þessar aðstæður er eðlilegt að fjárfestar kjósi að rýma til í hlutabréfasöfnum sínum og velja aðra fjárfestingarkosti en sem stendur bjóðast hagstæð kjör á peningamarkaði enda hafa stýrivextir hækkað jafnt og þétt og útlit fyrir frekari hækkun á þeim.