Ef fram heldur sem horfir mun velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu nema hátt í 340 milljörðum króna. Er þetta rétt tæplega 20% aukning frá árinu 2015, þegar veltan nam 282,5 milljörðum króna.

Er þessi tala fengin með því að skoða veltu á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári og framreikna hana út árið. Var velta á sama tímabili árin 2015 og 2014 borin saman við heildarveltu þessi árin og var hlutfallið mjög svipað í bæði skiptin. Var velta út miðjan október um 77% af heildarveltu beggja ára.

Velta á höfuðborgarsvæðinu í ár til og með 13. október nemur 261,4 milljörðum króna og er hún því nú þegar komin ansi nálægt því sem hún var allt árið í fyrra. Nú þegar er hún komin vel yfir heildarveltuna árið 2014, þegar hún var 228,5 milljarðar króna.

Á síðasta ári jókst velta í fasteignaviðskiptum alls staðar á höfuðborgarsvæðinu, mest í Garðabæ, um 58%, en minnst á Seltjarnarnesi, um 2%. Velta jókst sömuleiðis um allt land, mest á Norðurlandi eystra, en Suðurnes, Vesturland og Suðurland sækja líka í sig veðrið. Af sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins var veltan mest í Reykjanesbæ, á Akranesi og Akureyri.

Velta á fasteignamarkaði
Velta á fasteignamarkaði

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fasteignir sem fylgdi Viðskiptablaðinu síðast. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .