Að óbreyttu er útlit fyrir að spá Seðlabankans um 5,7% ársverðbólgu á þriðja fjórðungi 2012 og 5,9% ársverðbólgu á fjórða ársfjórðungi gangi ekki eftir, einkum og sér í lagi ef gengi krónunnar víkur ekki verulega af leið. Kemur þetta fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Gengisvísitalan hefur ekki verið sterkari í frá því í janúar 2011. Tók krónan ekki að styrkjast á síðasta ári fyrr en komið var fram í júlí og hélt sú þróun áfram fram í nóvember. Sterkustu áhrifin komu þó fram í júlí, ágúst og september. Miðað við þann ferðmannastraum sem virðist vera til landsins er ekki ólíklegt að þessi þróun haldi áfram eitthvað fram á haustið, að mati greiningardeildarinnar.

Í kjölfar tæplega 4% styrkingar krónunnar á rúmum tveimur vikum tekur skammtímaspá bankans nokkrum breytingum - en þar gefur greiningardeildin sér þá forsendu að gengið verði óbreytt til næstu þriggja mánuða. Á móti kemur að búast má við að húsnæðisliður vísitölu neysluverðs komi að einhverju leyti inn af meiri krafti á næstu mánuðum, en liðurinn hefur vægast sagt hegðað sér undarlega á þessu ári. Gangi spáin eftir verður ársverðbólgan á svipuðu róli næstu mánuðina, eða á bilinu 4,4-4,6%.