Útlit er fyrir myndarlegan vöxt í ferðaþjónustu í ár, enda virðist Ísland í tísku meðal erlendra ferðamanna og breytingar á gengi krónu hafa gert ferðir hingað hagstæðari kost en áður, segir greiningardeild Glitnis.

Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum voru tæplega 40 milljarðar króna á síðasta ári, sem jafngildir um 12,5% af útflutningi vöru og þjónustu það ár, að mati Seðlabankans og segir greiningardeildin að líklegt sé að tekjurnar verði umtalsvert hærri í ár vegna lægra gengis krónu og fjölgunar ferðamanna.

?Landsmenn virðast auk þess bregða undir sig betri fætinum innanlands í auknum mæli. Gistinætur á hótelum voru tæplega 134 þúsund í júní síðastliðnum samkvæmt nýbirtum tölum frá Hagstofu og fjölgaði þeim um 8% milli ára. Fjölgunin var raunar örari meðal Íslendinga, eða 22%, en gistinóttum erlendra ferðamanna fjölgaði um 5% frá júní í fyrra," segir greiningardeildin.

Hún segir að á fyrri helmingi ársins voru gistinætur alls ríflega 485 þús., sem jafngildir 10% aukningu frá sama tímabili 2005 og aukningin er hlutfallslega svipuð meðal íslenskra ferðamanna og erlendra.

?Tölur frá Ferðamálaráði um fjölda erlendra gesta um Leifsstöð segja áþekka sögu. Þeir voru rúmlega 149 þúsund á fyrri helmingi ársins og fjölgaði um 12% frá sama tímabili í fyrra. Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um fjölda erlendra ferðamanna með Norrænu í ár en þó virðist sem þar sé um svipaða aukningu að ræða og í fluginu. Við þetta bætast komur skemmtiferðaskipa, en þar lítur einnig út fyrir einhverja fjölgun frá síðasta ári," segir greiningardeildin.