Áætlanir flugrekenda á komandi sumri benda til þess að áfram verði veruleg aukning á umsvifum á Keflavíkurflugvelli eins og undanfarin ár. Í tilkynningu frá Isavia, rekstraraðila Leifsstöðvar, segirt að gert sé ráð fyrir um 10% auknum umsvifum miðað við fyrra ár en alls munu 16 flugfélög halda uppi ferðum til landsins í sumar.

Nýja árið fer vel af stað en farþegafjöldi í janúar jókst um 21,6% miðað við árið í fyrra, enda sex flugfélög með starfsemi í vetraráætlun í ár en þrjú í fyrra.

Á komandi sumri er ráðgert að afgreiða 32 farþegaflug (komur og brottfarir) um háannatíma að morgni og síðdegis flesta daga vikunnar en allmargar flugvélar eru jafnframt afgreiddar um hádegisbil og miðnætti. Þá er búist við að a.m.k. 15.500 farþegar fari um Flugstöð Leifs Eiríkssonar daglega þegar mest lætur í júní, júlí og ágúst.