Breska tískuvöruverslunarkeðjan French Connection (FCUK) mun tilkynna í næstu viku tap af rekstri félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins, segir í frétt The Sunday Telegraph.

Fjárfestingasjóðurinn Unity Investment, sem er í eigu Baugs, FL Group og breska athafnamansins og stofnanda Karen Millen, Kevin Stanford, á 19,6% hlut í FCUK.

Í fréttinni segir að tap af rekstri FCUK fyrir skatta sé allt að fjórar milljónir punda á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við rúmlega fimm milljóna punda hagnað fyrir skatta á sama tíma í fyrra.

Ef frétt The Sunday Telegraph reynist rétt mun það verða í fyrsta skipti í 14 ár sem tap verður af rekstri FCUK. Afkoma félagsins var neikvæð um átta milljónir punda árið 1992.

Sala FCUK hefur dregist saman á síðusta ári og fyrirtækið hefur gefið út þrjár afkomuviðvaranir á síðustu 13 mánuðum.

Talsmenn FCUK hafa ekki viljað tjá sig um hugsanlegan taprekstur en greiningarfyrirtækin Peel Hunt og Evolution spá tapi á bilinu 1,5-3,6 milljónir punda fyrir skatta.

Baugur hefur margoft verið orðaður við hugsanlega yfirtöku á FCUK. Hins vegar hefur Stephen Marks, sem ræður yfir 42% hlut í félaginu, sagt að félagið sé ekki til sölu.