Flugvirkjar funduðu með forsvarsmönnum Icelandair hjá Ríkissáttasemjara síðdegis í gær.

Flugvirkjar munu fara í sólarhringsverkfall frá klukkan sex að morgni 16. júní hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma. Þá hefur verið boðað til ótímabundins verkfalls frá sex að morgni 19. júní næstkomandi.

Ríkisútvarpið hefur eftir stjórnarmönnum í Félagi íslenskra flugvirkja á vef sínum í gærkvöldi að lítið hafi þokast í viðræðunum síðustu daga.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, lýsti því yfir í svari við andsvari Katrínar Jakobsdóttur formann Vinstri grænna, þegar hún mælti fyrir lögum gegn vinnustöðvun flugmanna í síðasta mánuði, að ekki yrðu sett lög á kjaradeilar án þess að þing yrði kallað saman.

Orðrétt sagði Hanna Birna:

Ég hef ítrekað sagt að þetta er neyðarúrræði, algjört neyðarrúrræði. Ég vona innilega að þær deilur sem hv. þingmaður nefnir komi hvorki til kasta ráðherra ríkisstjórnar né þings. Gerist það hins vegar á einhverjum tímapunkti að þau verkefni sem undir mig heyra kalla á lagasetningu með þeim hætti sem hér er um að ræða mundi ég sem ráðherra óska eftir því að þingið yrði kallað saman. Það er vegna þess að ég er í prinsippinu mjög ósátt við að þurfa að ganga þennan veg og tel að þegar slíkt er gert þurfi að kalla til þingið allt. Þannig að gerist þetta einhvern tímann aftur á minni vakt og þingið er ekki á sinni vakt mun ég óska eftir aðkomu þingsins, að þingið yrði kallað til fundar til að fara yfir það.

Því kynni verkfall að dragast eitthvað á langinn, takist ekki að semja, þó meirihluti alþingis myndi vilja setji lög á verkfallið þar sem einhverjar daga tæki að kalla þing saman.