Fjöldi stjórnenda hjá tónlistarveitunni Tidal hafa sagt upp að undanförnu. Andy Chen hætti sem forstjóri Tidal í Apríl. Peter Tonstad tók við stjórnartaumunum en hætti minna en þremur mánuðum síðar. Tónlistarveitan hefur ekki náð að festa sig í sessi og stendur nú frammi fyrir miklum vanda, að mati greinarhöfundar Business Insider .

Tidal býður upp á tvenns konar áskrift. Ódýrari áskriftin, sem fæst fyrir 10 dollara á mánuði, er nokkurn veginn eins og þær þjónustur sem fyrirtæki á borð við Spotify og Apple Music bjóða upp á. Því hafa neytendur lítinn hvata til að skipta yfir í Tidal.

Dýrari þjónustan er það sem helst skilur Tidal frá samkeppnisaðilunum. Hún er föl fyrir 20 dollara á mánuði og í þeirri áskriftarleið geta notendur hlustað á tónlist í hærri gæðum heldur en þeim sem hinar tónlistarveiturnar bjóða upp á. Eitt af þeim vandamálum sem hafa komið upp með þessa hágæðaþjónustu er að hvert þriggja og hálfrar mínútu lag er um 40 megabæt að stærð. Því geta notendur endað á að brenna upp allt gagnamagnið sitt við að hlusta á tónlist.

Í síðasta mánuði var tónlist með Lil Wayne dreift á Tidal. Dreifingin var ólögleg að sögn útgáfufyrirtækis Lil Wayne sem kallaði dreifinguna örvæntingarfulla tilraun til að bjarga Tidal.