Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, er viðskiptamaður ársins, samkvæmt dómnefnd Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins . Þá eru viðskipti FISK-Seafood með hlutabréf í Brimi valin bestu viðskipti ársins en kaup á skuldabréfum í Upphafi í vor valin verstu viðskipti ársins.

Marel var í vor skráð í Kauphöllina í Amsterdam. Hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um 69% á þessu ári. Þá festi Marel kaupa á íslenska félaginu Curio á árinu.

Árni Oddur og Marel hlutu einnig nafnbótina viðskiptamaður ársins hjá Viðskiptablaðinu og Frjálsri verslun í desember á síðasta ári.

FISK-Seafood keypti og seldi hluti í Brimi í lok sumars með 1,3 milljarða hagnaði á þremur vikum. FISK-Seafood keypti 8,3% hlut lífeyrissjóðsins Gildis í Brimi á genginu 33 á fimm milljarða króna og bætti svo við sig hlutum á genginu 34 og 36. Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem er að mestu í eigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brims, keypti allan hlut FISK, skömmu síðar, á genginu 40,4, fyrir tæplega átta milljarða króna. Greitt var fyrir stóran hluta kaupverðsins með aflaheimildum í þorski, ýsu, ufsa og steinbít, sem vakti mikla lukku sveitarstjóranarmanna í Skagafirði.

Þá voru kaup á skuldabréfum í sumar í fasteignafélaginu Upphafi, sem stýrt var af GAMMA, valin verstu viðskipti ársins. Í september var greint frá því að eigið fé sjóðsins Novus, sem hélt utan um fjárfestingu í Upphafi, hafði verið lækkað úr 3,9 milljörðum króna í 42 milljónir króna. Meðal stærstu sjóðsfélaga Novus, sem þurftu að afskrifa fjárfestingu sína, voru Guðbjörg Matthíasdóttir, TM og Stoðir. Kvika, og sjóðsfélagar tóku þátt í útgáfu forgangsskuldabréf til að bjarga fjármögnun Upphafs. Þá voru kaup Kviku á GAMMA einnig nefnd sem verstu viðskipti ársins.