DHL Express á Íslandi er efst á lista Great Place To Work yfir bestu fyrirtæki ársins hér á landi í ár. Þetta er í þriðja árið í röð sem Great Place To Work gefur út topplista yfir bestu fyrirtæki landsins. Í öðru sæti er auglýsingastofan Sahara, í þriðja sæti er leikjafyrirtækið CCP Games og í fjórða sæti er Byko.

Á síðasta ári var leikjafyrirtækið CCP Games í fyrsta sæti, en á listann koma inn Byko og DHL en auglýsingastofan Sahara heldur sæti sínu frá því í fyrra.

Benedict Gautrey, framkvæmdastjóri Great Place to Work, segir frábært að sjá fleiri íslenska vinnustaði hljóta Best Workplace-vottunina.

„Það eru alltaf fleiri og fleiri rekstraraðilar að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að setja starfsfólkið sitt í fyrsta sæti; það er betra fyrir vinnuaflið, betra fyrir viðskiptin, og betra fyrir samfélagið. Annað ár faraldursins beindi kastljósinu að mismunandi upplifunum starfsfólksins af vinnustaðnum. Allt frá því hvernig skólalokanir bitnuðu harðast á konum yfir í að ungt fólk hafði minna pláss á heimilum sínum fyrir vinnurými. Aðrir hópar fóru enn verr út úr faraldrinum. Það sama átti við um mismunandi geira atvinnulífsins. Sumar greinar áttu auðvelt með að aðlagast heimavinnu meðan aðrar voru varla starfhæfar. Það er í slíkum aðstæðum sem sterk forysta og menning byggð á sameiginlegum gildum getur haft úrslitaáhrif. Við höfum orðið vitni að vatnaskilum í viðleitni til að láta starfsfólki líða eins og hluta af heild, þar sem fjölbreytileikinn er ekki áskorun heldur takmarkið.  Forsprakkar atvinnulífsins þurfa að líta í eigin barm og leggja saman kosti og galla skipulagsins sem þeir hafa ræktað fram að þessu, og hvernig það er í stakk búið til að aðlagast væntingum starfsmanna um aukið jafnrétti, gagnsæi, sveigjanleika og lífsfyllingu," segir Benedict Gautrey í tilkynningu.

„Sama hvaða eldraunir fyrirtækið gengur í gegn um þá er þörf á djarfri forystu. Hjá bestu vinnustöðunum er starfsfólkið og líðan þess alltaf í forgangi. Það sem byrjar í nærumhverfi vinnustaðarins hefur áhrif á menninguna utan hans og jafnvel á alþjóðavettvangi. Það er alls staðar þörf á því að greina óréttlætið í samfélaginu og hámarka hæfileika og auðlindir til að draga úr því. Það er okkar hlutverk í Great Place to Work að bera kennsl á framúrskarandi vinnustaði, og styðja þá í því að gera enn betur. Kynntu þér endilega þá vinnustaði sem skara fram úr og sjáðu hvað þú getur lært af þeim,“ segir Benedict.