Gengi bréfa Danske Bank hefur fallið um helming frá því upphafi ársins 2007 og þótt lausafjárkreppan hafi haft áhrif á gengi bréfa bankann eins og á önnur fjármálafyrirtæki er skýringarinnar þó einnig að leita í að því er nú virðist misheppnaðri útrás og uppkaupum Danske Bank á erlendum bönkum.

Þetta kemur fram í opnuúttekt Børsen í dag undir fyrirsögninni: „Erlend stefna stórbanka bregst illilega“.

Danske Bank sá fram á, líkt og íslensku bankarnir, að takmörk væru fyrir frekari vexti á heimamarkaðinum og því var mörkuð sú stefna að auka umsvifin á erlendri grund.

„Stefnan gekk út á að ná að vaxa með auknum umsvifum erlendis jafnvel þótt samdráttur yrði á heimamarkaðinum í Danmörku. En nú eru vandræði á mörgum af þessum erlendum mörkuðum sem Danske Bank er á,“ segir Andreas Håkonsson, sérfræðingur hjá UBS við Børsen.

Missa viðskiptavini í Finnlandi

Danske Bank hefur m.a. annars haslað sér völl á Írlandi með uppkaupum þar og einmitt á þeim tíma sem allt var í toppi hjá Írunum og því væntanlega greitt hátt verð fyrir þá tvo banka sem Danske Bank á þar.

Nú hefur þetta gersamlega snúist við og allt útlit fyrir að írska hagkerfið sé í þann mund að lenda mjög harklega og að eignaverð lækki verulega en allt mun þetta haf neikvæð áhrif á afkomu dótturbanka Danske Bank á Írlandi.

Í Finnlandi keypti Danske Bank Sampo Bank af finnska trygginga- og fjármálarisanum Sampo sem Exista á 20% hlut í; í Finnlandi hefur allt snúist gegn Danske Bank eftir uppkaupin auk þess sem ljóst þykir að Danske Bank hafi greitt afar hátt verð fyrir bankastarfsemi Sampo.

Talað er um að eitt mesta upplýsingatækniklúður í sambandi við samræmingu upplýsingatæknikerfa Danske Banka og Sampo sem hefur síðan kostað Sampo Bank ófáa viðskiptavini. Þannig telur finnska blaðið Helsinki Sanomat að Sampo Bnak hafi misst um 40 þúsund viðskiptavini.

„Danske Bank hefur státað sig af hinu samllega upplýsingakerfi sem átti að skila hagræðingu til að vega upp á móti hinu háa verði sem greitt var fyrir Sampo Bank. Nú kemur í ljóst að þetta er eitthvert versta upplýsingatækniklúður í samruna evrópskra banka,“ segir Håkonsson, sérfræðingur UBS.