"Heimurinn er stór og hann er myljandi fullur af tækifærum," segir Lárus Elíasson, forstjóri Enex hf. í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í dag. Fyrirtækið sem hann stýrir er einskonar samnefnari íslenskra hönnunarstofa og orkufyrirtækja í útrás og sölu á íslensku hugviti í orkumannvirkjagerð. Hann segir að þróun í uppbyggingu orkuvera á Íslandi hafa vakið athygli erlendis. Íslenskir hönnuðir og verkfræðingar hafi gott orð á sér og er þetta nú farið að skila sér í sölu verkefna á því sviði erlendis.

"Við gerum ráða fyrir að vera virkur fjárfestir í okkar verkefnum og þá ekki með minna en 15% hlut í hverju tilviki. Við lítum ekki á okkur sem ráðgjafa eingöngu og viljum heldur ekki vera óvirkur fjárfestir. Við höfum ekkert að gera með að eiga peninga í félögum sem við höfum engin áhrif á hvernig eru rekin."

Lárus segir að þó fyrirtækið sé farið að ganga vel og búið að stimpla sig inn í hugum manna erlendis á þessu sviði, þá valdi hátt gengi á íslensku krónunni vanda í útflutningi í þessari grein eins og á öðrum íslenskum vörum. Auk þess séu sérfræðingar hér á landi líklega komnir með umtalsvert hærri tekjur en kollegar þeirra bæði í Bandaríkjunum og Þýskalandi.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.