Áárum áður þýddi viðhald á íhlutum gufuhverfla fyrir orku- og jarðvarmaver að senda þurfti þá úr landi til viðgerðar. Sú tíð er nú liðin og bendir nú ýmislegt til þess að sú þróun snúist algerlega við, það er að Ísland muni áður en langt um líður hefja viðgerðir og útflutning á slíkum íhlutum. Það er í það minnsta stefna forsvarsmanna Deilis Tækniþjónustu ehf.

Saga Deilis er rétt rúmur áratugur en það var stofnað árið 2008. Fyrst um sinn var það verktakafélag með einn starfsmann, Baldur Þ. Jónsson vélfræðing, sem sinnti þjónustu við vatns- og jarðorkuver Orkuveitu Reykjavíkur, síðar Orku náttúrunnar (ON). Smám saman jókst það samstarf með það að marki að auka uppitíma orkuvera.

„Með aukinni þekkingu á þessu sviði hefur rekstraröryggi orkuveranna aukist, bilunum fækkað og betur tekist til við að stjórna viðhaldsstoppum. Fyrstu árin var þróun verkefnisins unnin í nánu samstarfi með ON en síðar meir breikkuðum við verkefnasviðið með því að byrja að þjónusta veitufyrirtæki landsmanna einnig,“ segir Jóhann Jónasson, framkvæmdastjóri Deilis.

Árið 2017 keypti Deilir meirihluta í félagi sem nefnist Íslensk jarðhitatækni ehf. og í byrjun síðasta árs rann það félag inn í Deili. Það félag bjó að áratuga langri reynslu í hönnun borholudælubúnaðar fyrir jarðhitavatn og féll starfsemi félaganna vel saman. Það hefur skilað sér í því að velta Deilis á síðasta ári var meiri en nokkru sinni fyrr eða 970 milljónir króna. Það er rétt tæplega tvöfalt meira en árið 2018 þegar veltan nam 511 milljónum króna. Sé litið lengra til baka var veltan 87 milljónir króna 2013 og 15 milljónir króna árið 2012.

„Þegar við sameinuðumst Íslenskri jarðhitatækni, sem sérhæfði sig í þjónustu við veitufyrirtæki, þá náðum við að efla bæði þjónustu við veitu- og orkufyrirtækin og breikka vörulínur okkar. Vöxturinn hefur verið mikill á báðum sviðum. Okkur hefur tekist að bjóða fram betra úrval af vélbúnaði á báðum sviðum og það skýrir þetta stökk,“ segir Jóhann.

Um svipað leyti og félagið sleit barnsskónum var verkefni um jarðhitaklasa ýtt úr vör hér á landi. Þá sáu menn að tækifæri hér á landi væru gífurleg. „Við sáum að með auknu samstarfi orku- og nýsköpunarfyrirtækja væri hægt að skapa hér umhverfi fyrir mjög öflugan geira í íslensku atvinnulífi í rekstri og viðhaldi orkuvera. Áður fyrr var staðan hér sú að margt af því sem snerti jarðorku var unnið af erlendum aðilum og búnaður sendur út til viðhalds. Það þýddi að sjálfsögðu tapaðar rekstrarstundir hér heima. Nú hefur staðan snúist við og búnaður er sendur hingað til lands til viðgerðar,“ segir Jóhann.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .