Matarvögnum hefur farið fjölgandi miðsvæðis í höfuðborginni undanfarin misseri. Samkvæmt tölum frá Reykjavíkurborg eru 14 starfandi, en í dag verður sá fimmtándi opnaður, sushivagn í Mæðragarðinum. Matarvagnar spruttu upp úr efnahagskreppunni; það er ódýrara að fá mat úr matarvagni en að fara á veitingastað, auk þess sem það er áhættuminna fyrir eigendur að opna matarvagn en veitingastað. Þrátt fyrir efnahagsbata, fer matarvögnum einungis fjölgandi.

Framboð söluaðstöðu mikið

Jóhann S.D. Christiansen, verkefnastjóri hjá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur, segir að hægt sé að veita leyfi fyrir matarvögnum eftir atvikum, bílar eru til dæmis bannaðir á torgum og því er aðgengi þeirra mun takmarkaðra en söluvagna. Hins vegar bendir hann á að borgin sé stór og heimilt sé að sækja um hvar sem er innan borgarmarka, framboð söluaðstöðu sé því mikið. „Sú meginregla gildir um afhendingu leyfa að fyrstur kemur fyrstur fær, meðal jafningja er það skráður umsóknartími sem ræður hver fær og hver ekki, eins hefur ósk um fjölbreytilegt vöruframboð, útlit og stærð söluaðstöðu áhrif,“ segir Jóhann.

Matarvagn minni fjárfesting

Fish & chips-vagninn er einn sá nýjasti í flóru matarvagna. Hann var opnaður 1. maí síðastliðinn og var stofnaður af þremur félögum, sem störfuðu allir á sama tíma við að markaðssetja og selja íslenskan fisk á Bretlandseyjum, en fannst vanta framboð af „fish and chips“ samkvæmt bresku aðferðinni á Íslandi. Höskuldur Ásgeirsson, einn stofnendanna, segir að þeir hafi talið matarvagn vera minni fjárfestingu og skuldbindingu en veitingastað, auk þess sem mikill vöxtur hafi orðið í veitingavagnageiranum. „Við töldum að þetta vantaði inn á markaðinn hér, að vera með veitingavagn og geta borðað og setið úti á bryggju,“ segir Höskuldur auk þess að benda á vaxandi vinsældir „fish and chips“ sem þykir góður og hollur skyndibiti. Höskuldur segir að vel gangi þrátt fyrir að mikið framboð sé af öðrum mat. „Við höfum auðvitað lagt mikla áherslu á gæði, erum með hágæða íslenskan fisk og höfum vandað til alls undirbúnings. Við höfum fengið mjög sterkar viðtökur frá okkar ágætu viðskiptavinum og við erum að sjá þá koma aftur og aftur því þeim líkar þessi réttur hjá okkur,“ segir Höskuldur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .