Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið NEFCO (Nordic Environment Finance Corporation) er alþjóðleg fjármálastofnun sem hefur það að markmiði að efla norræna þátttöku í umhverfismálum í Mið- og Austur-Evrópu. Félagið fjármagnar útrás smárra og meðalstórra norrænna fyrirtækja til þessara svæða, en gerir þá kröfu um að starfsemi fyrirtækjanna sé umhverfisvæn og hafi jákvæð áhrif á umhverfið.

„Við veitum allt að 5 milljónum evra eða því sem nemur 600 millj­ónum íslenskra króna í þágu umhverfisvænna verkefna, ýmist í formi lánsfjár eða hlutafjár,“ segir Þórhallur Þorsteinsson, fjárfestingastjóri NEFCO.

Eignir í stýringu félagsins eru um 500 milljónir evra, en NEFCO fjárfestir í gegnum fjárfestingarsjóð, sem er um 165 milljónir evra að stærð. Einnig stýrir NEFCO sérstökum sjóð­um fyrir Norðurlöndin, Bandaríkin, Þýskaland, Holland, Rússland, Evrópusambandið og Alþjóðlega umhverfissjóðinn (GEF). Félagið starfar í 10 löndum, með höfuð­stöðvar í Helsinki og skrifstofur í Sankti Pétursborg í Rússlandi og Kíev í Úkraínu. Starfsmenn NEFCO eru um 40.

„Við gerum þá kröfu til fyrirtækja sem sækja um fjármögnun frá okkur að verkefnin þeirra séu umhverfisvæn og feli í sér jákvæð áhrif á núverandi umhverfisástand, sem og ástandið til framtíðar. Við erum með sérstaka umhverfissérfræðinga innanborðs sem meta þessi áhrif, sem geta verið bein eða óbein, til dæmis minnkun koltvísýrings, minnkun orku- eða rafmagnsnotkunar og losun eiturefna,“ segir Þórhallur.

„Við erum ekki eins og hefðbundinn fjárfestir sem setur ávöxtunarkröfu á fjármagnið sitt, þó að fjármagnið okkar sé ávallt á markaðskjörum, heldur erum við þolinmóður fjárfestir sem tekur áhættu í þágu þess að verkefni séu umhverfislega hagkvæm.“

NEFCO var stofnað árið 1990 með eiginfjárframlögum frá ríkisstjórnum Norðurlandanna, þar á meðal Íslandi, sem vildu setja fjármagn í umhverfismál. Fjármagnið hefur staðið undir rekstri NEFCO síðan, og hefur félagið hvorki tekið lán né fengið árleg fjárframlög. Á núvirði hafði fjárfestingarsjóðurinn um 133 milljónir evra til umráða í upphafi. Verkefnin voru og eiga sér enn stað eingöngu á grannsvæðum Norðurlandanna – einkum Austur-Evrópu – en ekki á sjálfum Norðurlöndunum.

„Ástæðan fyrir því var að það var tíu sinnum ódýrara að fjárfesta í verkefnum á grannsvæðunum en á Norðurlöndunum og þú fékkst sömu umhverfisáhrifin,“ segir Þórhallur, sem segir það aftur á móti skýrast af frumstæðum tækjakosti í Austur-Evrópu og af því að Norðurlöndin stóðu almennt framarlega í umhverfismálum. „Mesta starfsemin hefur verið í Rússlandi, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi og höfum við tekið þátt í um 500 verkefnum frá stofnun. Við byrjuðum í Eystrasaltslöndunum og Póllandi og höfum farið að skoða þau lönd aftur, vegna þess að markaðir Rússlands og Úkraínu hafa verið erfiðir síðustu ár.“

NEFCO vinnur nú að nýrri strategíu, sem gerir félaginu kleift að styðja við smá og meðalstór norræn fyrirtæki í þeirra útrás utan Norðurlandanna og Evrópusambandsins. NEFCO mun halda kynningarfund fimmtudaginn 27. október í húsakynnum Samtaka iðnaðarins.

Þórhallur segir NEFCO styðja við norræn fyrirtæki á tvo vegu. „NEFCO getur einnig fjármagnað umhverfisvæn verkefni í gegnum norræna verkefnaútflutningssjóðinn, Nopef (Nordic Project Fund). Sjóðurinn veitir styrki til hagkvæmnisathugana og markaðsrannsókna fyrir smá og meðalstór norræn fyrirtæki sem hyggjast fara í útrás hvar sem er í heiminum utan EES-svæðisins.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .