Niðurstaða nýrrar rannsóknar Einars Svanssonar, ráðgjafa hjá ParX sem er dótturfélag Nýherja, er að ekki sé marktæk fylgni milli aukinnar starfsemi erlendis og aukins árangurs hjá íslenskum fyrirtækjum. Rannsóknin náði til 192 stærstu fyrirtækja landsins og tók mið af tveimur mælikvörðum í alþjóðavæðingu, annars vegar fjölda starfsstöðva erlendis og hins vegar aukinnar sölu erlendis.

Niðurstöður sýna að rúm 60% fyrirtækja sem svara könnuninni eru með sölu utan heimamarkaðar árið 2007 og um 30% eru með eina eða fleiri erlenda starfsstöð. Hins vegar ná fyrirtæki sem hafa haslað sér völl erlendis almennt ekki betri árangri en þau fyrirtæki sem starfa á heimamarkaði. Ein ástæðan fyrir því er sú, að sögn Einars, að fyrirtækin þurfa að skara fram úr á sínu sviði, annað hvort með sérhæfingu eða krafti stærðar.

Einar segir að Bakkavör og Actavis séu dæmi um fyrirtæki í rannsókninni sem náð hafa meiri árangri með auknum vexti erlendis. Bæði fyrirtækin séu í fremstu röð í sínum atvinnugreinum, sem sé athyglisvert þegar haft er í huga að Actavis var t.d. ekki með umtalsverðan útflutning eða starfsemi erlendis árið 2000.