Orkumál eru víðar í brennidepli en hér á landi og fleiri útrásarfyrirtæki en Reykjavik Energy Invest eru á milli tannanna á fólki. Eitt umdeildasta fyrirtæki heims hlýtur að vera rússneski orkurisinn Gazprom: Fyrirtækið hefur verið í eldlínunni í milliríkjadeilum Rússa annars vegar og Georgíumanna, Úkraínumanna og Hvít-Rússa hins vegar og hafa margir gengið svo langt að fullyrða að fyrirtækið sé í raun orkuarmur utanríkisstefnu stjórnvalda í Moskvu. Nokkuð kann að vera til í þeirri staðhæfingu, þar sem Gazprom er í meirihlutaeigu stjórnvalda í ríki sem virðist hafa horfið af lýðræðisbrautinni.

Stærð Gazprom er feikileg. Markaðsvirði fyrirtækisins er um 300 milljarðar Bandaríkjadala og er það því þriðja stærsta fyrirtæki heims. Gangi áform forráðamanna fyrirtækisins eftir, sem velflestir tilheyra valdakjarna Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta, verður það hið stærsta í heimi eftir tæpan áratug. Kraftbirtingarform þeirra áforma sést meðal annars í byggingu höfuðstöðva félagsins í Pétursborg: Um er að ræða byggingu þrjúhundruð metra hás turns, sem er í líki gasloga og samhliða honum mun heil borg rísa. Byggingaráform nýríkra orka oft tvímælis og hefur höfuðstöðvunum verið líkt við hryðjuverk á sviði umhverfis- og skipulagsmála og hönnunin sögð "draumsýn villimanna".

Lesið úttekt á Gazprom á miðopnu Viðskiptablaðsins.