Fjórir ráðherrar ríkisstjórnar Íslands funduðu með forystumönnum í Samstökum fjármálafyrirtækja í Ráðherrabústaðnum í gær og ræddu um þann óróleika sem ríkir á fjármálamörkuðum sem lýsir sér með lausafjárskorti og lækkandi gengi fyrirtækja í kauphöllum víða um heim. Með fundinum reyndu ráðherrar að fanga sjónarmið bankamanna og komast að hvað hið opinbera geti gert til þess að bregðast við breyttum aðstæðum. Ekki hefur verið ákveðið hver næstu skref verða. Var fundurinn haldinn í kjölfar Viðskiptaþings sem haldið var síðastliðinn miðvikudag.

"Við viljum auðvitað sýna ákveðna samstöðu, ríkið og fjármálageirinn, þegar aðstæður eru eins og þær eru," segir Geir H. Haarde forsætisráðherra í samtali við Viðskiptablaðið. Jafnframt lýsir hann yfir áhyggjum af umfjöllun um íslenskt efnahagslíf í erlendum fjölmiðlum, þar sem gætt hefur ranghugmynda. "Það má vera að við getum bætt okkur í því með því að stilla saman strengina," segir Geir.

Fjármálalífið með ákveðnar hugmyndir um kerfisbreytingar hjá ríkinu

Aðspurður um sjónarmið fjármálalífsins vildi Geir ekki nefna einstök atriði. Hann nefndi þó að fátt væri nýtt undir sólinni í þeim málum. "Þeir eru með ákveðnar hugmyndir um kerfisbreytingar hjá ríkinu. Svo fórum við líka yfir hvað þeir geta sjálfir gert, hvað varðar það að draga úr kostnaði og styrkja stöðu sína með nýju hlutafé - hvernig svo sem þeir gera það," segir hann.

Aðspurður um þau orð, hvort ráðherrarnir mæli með að bankarnir auki við hlutafé sitt sagði Geir að bankarnir verði að leysa sín mál sjálfir. "Við höfum áhuga á því að þeir gera allt sem þeir geta til að styrka sína stöðu við núverandi aðstæður, þetta er auðvitað gríðarlega öflug og stór fyrirtæki. Við ætlum ekki að kenna þeim hvernig á að stunda sinn rekstur," segir hann.