Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest og stjórnarformaður Marels, segir að útrás Marels á árunum fyrir 2009 hafi komið félaginu til hjálpar. Án hennar væru viðskiptavinir félagsins færri og eingöngu í fiskiðnaði. Árni Oddur er í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í nýjasta tölublaði þess.

Árni Oddur segir að Marel standi vel að vígi þegar litið er til ársins í ár og væntingar eru um að rekstrarafkoma verði vel viðunandi. Raunar má segja að útrás félagsins hjálpi nú til. „Við gætum ímyndað okkur stöðuna ef Marel hefði ekki ráðist í útrás og yfirtökur á síðustu árum. Marel væri þá eingöngu að þjónusta villtan fisk á Norður-Atlantshafi, þar sem nýfjárfestingar hafa verið mjög takmarkaðar síðustu ár. Tekjur og gjöld fyrirtækisins væru að miklu leyti í íslenskum krónum og því takmarkaður áhugi erlendra banka og fjárfesta á fyrirtækinu.

Vöxtur félaganna hefur hvorki verið tilviljanakenndur né tækifærissinnaður og við höfum einbeitt okkur að því að viðhalda réttri fjármagnsskipan eftir því hvað aðstæður leyfðu. Veltusamdráttur var ríflega 20% á árinu 2009 hjá Marel. Kostnaðargrunnur hefur hins vegar lækkað án þess að við gáfum eftir í fjárfestingu í tækni og markaðsaðgangi. Rekstrarforsendur hafa stórbatnað eftir hagræðingu og framundan er uppskerutími. Það sem er ekki síður mikilvægt er að skuldir samstæðunnar hafa lækkað verulega, úr ríflega 400 milljónum evra í um 280 milljónir síðustu 18 mánuði. Sjóðsstreymi frá rekstri hefur verið gott, en jafnframt réðumst við í hlutafjárútboð til að styrkja eiginfjárþátt rekstrar hjá Marel og seldum einingar utan kjarnarekstrar.“

-Nánar í Viðskiptablaðinu