Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Birgir Jónsson, forstjóri Play, tókust á í Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudaginn var. Í þættinum sagði Drífa að útreikningar ASÍ hefðu ekki verið véfengdir, en það er rangt. Viðskiptablaðið benti á að sá samanburður sem Drífa hefur farið fram með í fjölmiðlum, og útreikningar ASÍ grundvallast á, sé rangur, í fréttaskýringu á miðvikudaginn, skömmu eftir að ályktun ASÍ um kjaramál Play fór í loftið. Byggir Viðskiptablaðið athugasemdir sínar á ítarlegri athugun á kjarasamningum flugliða Play og Icelandair.

Við útreikninga ASÍ er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi heldur Drífa því statt og stöðugt fram að lægstu grunnlaun flugliða Icelandair séu 307.398 krónur.

Í Sprengisandi spyr Birgir, forstjóri Play, Drífu: „Getur þú staðfest það að lægsta talan á launatöflunni í þessum samningi hjá Icelandair, sem ég hef ekki séð, sé 210 þúsund?". Drífa svarar um hæl: „Ég get staðfest það að föst mánaðarlaun, grunnlaun fyrir nýliða hjá Icelandair eru 307.398 krónur."

Líkt og launatafla flugliða Icelandair hér fyrir neðan sýnir eru lægstu grunnlaun flugliða Icelandair 210.115 krónur, en lægstu föstu laun, sem eru grunnlaun að viðbættu vaktaálagi og handbókunargjaldi, 307.398 krónur. Þetta eru ekki strípuð grunnlaun, líkt og sú tala sem hún ber þessi laun saman við hjá Play.

Launatafla flugliða Icelandair
Launatafla flugliða Icelandair

Munur á launum sem mynda iðgjaldastofn 2%

Í Sprengisandi sagði Drífa jafnframt: „Það er tvennt í þessu. Í fyrsta lagi eru þetta lægstu laun sem við höfum séð, grunnlaunin eru 266.500, ég ætla bara að endurtaka þetta, grunnlaunin eru 266.500, og af þessum grunnlaunum er allt annað metið hvort sem það eru lífeyrisgreiðslur eða réttindi til fæðingarorlofs eða veikinda."

Það er rétt að strípuð grunnlaun Play eru lægst 266.500 krónur fyrir nýliða, en það er rangt að þau séu þau lægstu sem sést hafa og að af þessum grunnlaunum sé allt annað metið, hvort sem það eru lífeyrisgreiðslur eða annað.

Það eru heildarlaun sem mynda iðgjaldastofn, það er allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru. Undanskilin þessu eru hlunnindi, svo sem fatnaður, fæði og húsnæði, og greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, svo sem bifreiðastyrkur og dagpeningar.

Ætlun Drífu er því sennilega að bera saman þær launagreiðslur sem mynda iðgjaldastofn. Lægstu föstu mánaðarlaun flugliða Icelandair sem mynda iðgjaldastofn eru vissulega 307.398 krónur, en þau eru ekki 266.500 krónur hjá Play, heldur 300.500 krónur, séu föst sölulaun flugliða Play réttilega tekin til greina. Þarna munar 2% á lægstu föstu mánaðarlaunum sem mynda iðgjaldastofn hjá flugfélögunum tveimur, séu kjör þeirra borin saman á jafnræðisgrundvelli.

Útreikingar Viðskiptablaðsins á kjaramálum Play
Útreikingar Viðskiptablaðsins á kjaramálum Play

Bifreiðastyrkur Play er jafnframt greiddur óháð vinnuframlagi, þá bæði í orlofi og veikindaleyfi, og séu allar fastar mánaðargreiðslur Play teknar saman óháð því hvort þær myndi stofn til iðgjalda, eru þær lægst 351.851 króna.

Við vinnslu fréttaskýringar Viðskiptablaðsins hafði blaðamaður samband við stjórnarmeðlim FFÍ til að fara yfir hvaða launaliðir væru greiddir óháð vinnuframlagi og þegar spurt var um bifreiðastyrk svaraði stjórnarmeðlimurinn því afdráttarlaust neitandi að hann væri greiddur óháð vinnuframlagi. Eftir að fréttin var birt á miðvikudag, þar sem fram kom að lágmarks fastar mánaðartekjur flugliða Play væru hærri en hjá Icelandair, hafði sami stjórnarmeðlimur samband og sagði bifreiðastyrkinn greiddan óháð vinnuframlagi. Viðskiptablaðið óskaði eftir gögnum því til staðfestingar en þau hafa ekki borist og ekki heldur svar um að það standi til að útvega þau.

Yfirvinna greidd hjá Play

ASÍ bætir við ýmsum óreglulegum liðum í útreikningana, sumum matskenndum og háðum forsendum, sem ekki þjóna neinum tilgangi í umræðunni um hvort Play undirbjóði laun á markaði.

Þá hefur Drífa sagt opinberlega að svo virðist sem ekki sé greidd yfirvinna hjá Play, sem er ekki rétt. ASÍ stillir útreikninga sína af við forsendu um 85 fartíma en þannig vill einmitt til að yfirvinna nýliða hjá Play byrjar að telja eftir 85 tíma, en eftir 68 til 72 tíma hjá flugliðum með reynslu, og það á við um alla sem verða ráðnir inn hjá Play til að byrja með.

Loks má benda á að ASÍ leggur í útreikningum sínum breytileg sölulaun flugliða Icelandair að jöfnu við föst sölulaun flugliða Play, sem varla er samanburðarhæft, en flugliðar Play munu jafnframt fá breytileg sölulaun greidd, fari sala umfram þessi lágmarks sölulaun sem greidd eru óháð vinnuframlagi.

Hér fyrir neðan má sjá útreikninga ASÍ með athugasemdum Viðskiptablaðsins.

Útreikningar ASÍ v. Play leiðréttir
Útreikningar ASÍ v. Play leiðréttir