Nágrannalönd okkar hafa mörg hver aflétt öllum innanlandstakmörkunum og fallið frá því að setja börn og bólusetta einstaklinga sem hafa verið útsett fyrir smiti í sóttkví, auk þess sem almennt eru vægari kröfur gerðar til bólusettra ferðamanna á landamærum.

Þannig eru ekki gerðar kröfur um sóttkví útsettra en einkennalausra barna og bólusettra einstaklinga í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi. Þá eru þessir einstaklingar ekki skyldaðir í skimun í Noregi, Svíþjóð og á Englandi.

Aðilar innan ferðaþjónustunnar hafa bent á að harðari aðgerðir á landamærum hér í samanburði við nágrannalönd fæli ferðamenn frá landinu. Bólusettir ferðamenn sem ekki hafa tengsl við Ísland eru skyldaðir í skimun bæði fyrir og eftir komu til landsins en víða annars staðar er ekki gerð krafa um skimun bólusettra.

Þá hafa langar biðraðir vegna athugunar á bólusetningarvottorðum hvers einasta farþega við komu verið gagnrýndar, meðal annars vegna aukinnar smithættu, og eftir því kallað að athuganirnar verði handahófskenndar.

Árangursrík aflétting Englendinga

Athygli vakti þegar innanlandstakmarkanir voru afnumdar í Englandi seint í júlí, á hápunkti yfirstandandi smitbylgju í Bretlandi. Smitfjöldi dróst hratt saman í kjölfarið en tók að fjölga á ný um tveimur vikum síðar en tilfellin hafa þó ekki náð fyrri hæðum nú þegar tæpir þrír mánuðir hafa liðið frá afléttingum í Englandi.

Líkt og hérlendis hefur álag á bresk sjúkrahús verið mun minna undanfarna mánuði en í fyrri smitbylgjum og sýna gögn embættis landlæknis á Englandi að dregið hefur verulega úr tíðni alvarlegra veikinda meðal 65 ára og eldri af völdum veirunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .