Munnlegur málflutningur í máli er snýr að verðtryggingu á íslenskum neytendamálum og vísitölu neysluverðs fór fram fyrir EFTA- dómstólnum í Lúxemborg í síðustu viku. Búist er við niðurstöðu í júní. Málið var höfðað af Gunnari V. Engilbertssyni, fyrrverandi starfsmanni Glitnis, gegn Íslandsbanka, vegna 4,4 milljóna króna verðtryggðs húsnæðisláns sem var tekið árið 2007.

Í skýrslu framsögumanns sem lögð var fram fyrir málflutningnum er farið yfir rök stefnanda og stefnda en einnig þeirra sem skiluðu greinargerðum vegna málsins en það voru auk málsaðila, íslenska ríkið, Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og framkvæmdastjórn Evrópu- sambandsins. Í skýrslunni má lesa að íslenska ríkið og ESA leggjast bæði á sveif með Íslandsbanka í málinu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gerir það hins vegar ekki.

ESA lagði til að EFTA-dómstóllinn svaraði spurningunum með eftirfarandi hætti: „Gildissvið tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum nær ekki til samningsskilmála eins og þeirra sem málið sem rekið er fyrir landsdómstólnum snýst um, að svo miklu leyti sem þeir endurspegla reglur landsréttar um verðtryggingu afborgana af lánum til fjármögnunar fasteignakaupa.“

Með öðrum orðum þá telur ESA að skilmálar skuldabréfa og greiðsluáætlana, sem mál þetta lítur að, falli utan gildissviðs tilskip- unarinnar. Þar af leiðandi sé ekki nauðsynlegt að veita svar við þeim spurningum sem landsdómstóllinn hefur beint til EFTA-dómstólsins.

Framkvæmdastjórnin telur að Evróputilskipunin útiloki ekki notkun verðtryggingar. Hins vegar telur framkvæmdastjórnin að að- eins megi heimila verðtryggingarákvæði „með því eina skilyrði að slíkur skilmáli verði að innihalda rækilega útskýringu á aðferðinni sem beitt er við útreikning verðbreytinga“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.