Jólaverslunin fór af stað í nóvember og var blómleg. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá var mikil söluaukning milli ára í raf- og heimilistækjum, húsgögnum, fatnaði og skóm, og höfðu útsölur hvetjandi áhrif á verslun. Hagtölur benda til þess að landinn ætli einnig að gera vel við sig í mat og drykk yfir hátíðarnar.

Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar, segir söluaukninguna í nóvember vera beina afleiðingu af mikilli kaupmáttaraukningu og vexti í einkaneyslu. Einnig höfðu útsölur áhrif á söluaukninguna.

„Aukinn kaupmáttur, sem að hluta til skýrist af styrkingu krónunnar og lítilla verðhækkana, hefur líklega mest áhrif á söluaukninguna. Ekki má heldur gleyma að væntingar neytenda eru mjög bjartar um þessar mundir hvað varðar fjárhag heimilanna,“ segir Emil.

„Allt bendir samt til þess að neytendur séu orðnir hagsýnni en var fyrir hrun, eyði ekki um efni fram og velji frekar gæði en magn. Síðan er fjölbreytni í verslun að aukast og samkeppnin verður sífellt meiri á milli verslana þegar vel árar í efnahagslífinu.“

Fleiri auglýstu Black Friday

Líklega gætir áhrifa útsala í söluaukningunni í nóvember sem stóru verslunarmiðstöðvarnar og fleiri verslanir stóðu fyrir. Kringlan stóð fyrir útsöludegi, „Miðnætursprengja Kringlunnar“, í byrjun nóvember sem hafði nokkur áhrif á söluaukninguna í fataverslun. Undir lok mánaðarins auglýstu íslenskar verslanir síðan bandaríska útsöludaginn Black Friday.

„Black Friday hugtakið var innleitt í íslenska verslun fyrir ári síðan. Í fyrra voru mest áberandi Black Friday útsölur í raftækjaverslunum en núna hafa fleiri tegundir verslana nýtt sér hugtakið til að laða til sín viðskiptavini,“ segir Emil.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .