Rekstraraðilum verslana í Kringlunni er óheimilt að halda útsölur utan ákveðins tímaramma sem stjórn Kringlunnar ákveður. Í bréfi sem Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, sendi verslunareigendum segir að brjóti rekstraraðilar gildandi reglur muni það leiða til dagsekta sem nemi 1.160 krónum á hvern fermetra.

Segir að rýmingarsala og útsala á öðrum tímum en þeim sem stjórnin ákveður sé háð leyfi. „Til að viðhalda stöðu Kringlunnar er þarft að fylgja þeim reglum og ákvörðunum sem liggja fyrir hverju sinni. Vonandi þarf ekki að koma til þess að Rekstrarfélagið beiti dagsektarákvæðum í reglum Kringlunnar,“ segir í bréfinu.