Útsölurnar eru byrjaðar á fullum krafti í Bretlandi en BBC greinir frá því í dag að stórverslanirnar John Lewis og Marks & Spencer hafi byrjað útsölur í verslunum sínum í dag, sem er fyrr en venjulega.

Samkvæmt hefðinni byrja margar af stærri bresku verslunarkeðjunum, t.d. þær sem hér voru nefndar, útsölur sínar eingöngu á vefnum á milli jóla og nýárs en útsölurnar inn í verslununum hefjast iðulega við opnun í janúar.  Aðrar verslanir byrjar útsölurnar á annan dag jóla.

Samkvæmt vef BBC fara útsölur vel af stað í Bretlandi en helsta ástæðan er talin sú að um áramótin hækkar virðisaukaskattur þar í landi aftur upp í 17,5%. Virðisaukaskatturinn var lækkaður niður í 15% í desember í fyrra í þeim tilgangi að hreyfa við neytendum og auka verslun.

Á annan dag jóla jókst salan um 18,5% milli ára. Þá hefur netsala síðustu þrjá daga (útsölur á netinu byrjar oftast kl. 18 á aðfangadagskvöld) aukist um 23% á milli ára.