Fjárhagsáætlun Vestmannaeyja fyrir árið 2016 var lögð fyrir bæjarstjórn sveitarfélagsins í gær.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að útsvar fyrir árið 2016 verði hækkað um 2,7% frá árinu 2015. Útsvar verður því 14,36%, en hámarks útsvar er 14,48%.

Um leið verður farin sú leið að lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði úr 0,42% niður í 0,35% en hámarks fasteignagjöld eru 0,5%.

Áætlaður rekstrarafgangur 125 milljónir

Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur á árinu verði 99 milljónir í A-hluta og 125 milljónir í samstæðu.

Reiknað er með því að veltufé sveitarsjóðs frá rekstri verði jákvætt um rúmar 132 milljónir fyrir A-hluta sveitarsjóðs og 643 milljónir fyrir samstæðu.

Skuldahlutfall sveitarsjóðs er 98% og eiginfjárhlutfall 66%. Skuldahlutfall að frádregnu handbæru fé er hinsvegar 18% fyrir sveitarsjóð og 41% fyrir samstæðu.

Í tilkynningu bæjarstjóra, Elliða Vignissonar, segir að Vestmanneyjabær njóti nú góðs af því að hafa greitt upp megnið af vaxtaberandi skuldum í góðærinu og hagrætt verulega í rekstri.

Áhersla lögð á málefni aldraðra og fatlaðra

Áætlunin ber það með sér að Vestmannaeyjabær muni á næstu árum leggja höfuðáherslu á málefni aldraðra og fatlaðra auk þess sem stefnt er að því að standa myndarlega að uppbyggingu á fræða-, rannsókna og háskólaklasa.

Vestmannaeyjabær mun til að mynda verja rúmlega 100 milljónum á komandi ári til eflingar fræðaklasa, samkvæmt fjárhagsáætluninni.