Uppfært kl. 17:19:

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var sagt að útsvar í Reykjavík hefði hækkað um 217% frá árinu 1993. Hið rétta er að útsvarið hefur hækkað um 117%.

Úr úttekt Viðskiptablaðsins á skuldaþróun Reykjavíkurborgar:

Á sama tíma og skuldaþróun hefur verið borgarbúum afar óhagstæð til lengri tíma litið hefur skattheimta borgarinnar einnig farið vaxandi. Frá árinu 1993 og til dagsins í dag hefur útsvarshlutfall hækkað úr 6,70% í 14,52%, sem er hækkun um 117%. Hér er þó rétt að hafa í huga að málaflokkar hafa færst frá ríki til sveitarfélaga, eins og rekstur grunnskóla árið 1996.

Sé litið á þróun útsvarshlutfalls frá 1988 til dagsins í dag má sjá að fram að aldamótum var útsvarshlutfall lágt og fylgdi lögbundnu lágmarksútsvari, eftir að því var komið á árið 1994. Aftur á móti hækkaði þáverandi borgarstjórn útsvar um aldamót, en það hefur haldist nærri eða verið jafnt lögbundnu hámarksútsvari allar götur síðan.

Hér er rétt að hafa í huga að útsvar sem hlutfall af skatttekjum sveitarfélags er í dag mun meira en áður. Þannig nam útsvar 58% af skatttekjum sveitarfélaga árið 1991, var komið í 75% skatttekna árið 1994 en er í dag um 81% af skatttekjum. „Það er töluvert önnur samsetning skatttekna hjá sveitarfélögum nú en áður,“ segir Gísli Hlíðberg Guðmundsson borgarbókari.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .