*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 9. febrúar 2019 13:05

Útsvargreiðslurnar jukust um 10%

Á sama tíma og Reykjanesbær jók tekjur sínar um nærri fimmtung jukust tekjur af Reykvíkingum vel undir meðaltalinu.

Ritstjórn
Útsvarstekjurnar í Reykjanesbæ jukust um 18% milli áranna 2017 og 2018.
Aðsend mynd

Útsvarstekjur sveitarfélaga námu í heildina 195 milljörðum króna á síðasta ári sem var aukning um 9,5% frá árinu 2017 að því er Morgunblaðið hefur upp úr tölum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Frá árinu 2014 hefur aukningin verið 61 milljarður, eða 46% að nafnvirði, en þá námu þær tæplega 134 milljörðum, 144 milljörðum árið 2015, 161 milljörðum árið 2016 og 178 milljörðum árið 2017. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 8% frá árinu 2014 til 2018, svo raunverðshækkunin nemur um 38% frá árinu 2014.

Mestar tekjur runnu til Reykjavíkurborgar, en hún fékk 72,3 milljarða í fyrra, sem þó er minni en meðaltalsaukningin, eða 8,4%, sem bendir til þess að laun og aðrar útsvarsskattskyldar tekjur íbúa borgarinnar hafi ekki hækkað í takt við landsmeðaltal.

Kópavogur var hins vegar rétt undir meðaltalinu, eða með 9,4% hækkun, en það er það sveitarfélag sem fær næstmesta hluta heildarútsvarsgreiðslnanna, eða 21,4 milljarða. Í þriðja sæti er Hafnarfjörður með 16,3 milljarða eftir 8,7% aukningu, og Reykjanesbær í því fjórða með 9,9 milljarða, en það er heil 18% aukning á milli ára.

Þar með urðu útsvarstekjur bæjarins meiri en Garðabær hefur af sínum íbúum, en sá bær fór hins vegar fram úr Akureyri sem nú er í sjötta sæti, en var í því fjórða fyrir ári. Fyrr í vikunni kom það fram í fréttum að Reykjanesbær er nú 4. Stærsti bær landsins, með 19 þúsund íbúa, en hann náði því sæti af Akureyri. Árið 2010 bjuggu hins vegar 14 þúsund manns í Reykjanesbæ, en þá voru 17.573 íbúar á Akureyri.

Annar bær sem tekið hefur stökk á þessum tíma er Árborg, en á síðasta ári jukust útsvarstekjur bæjarins um 13% og námu 4,6 milljörðum króna. Akranes jók sínar tekjur svo um 11,4% eða úr 3,6 milljörðum í 4 milljarða.

Stikkorð: Reykjavík útsvar aukning