Útsvarið hefur hækkaði mest frá fyrra ári í Reykjanesbæ eða um 0,58 prósentustig úr 12,7% í 13,28%. Fasteignaskattur er víðast óbreyttur frá fyrra ári en hækkar mest í Skagafirði um 16,5% og á Akureyri um 14%, að teknu tilliti til breytinga á fasteignamati.

Þetta kemur fram á vef ASÍ en verðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman upplýsingar um breytingar á útsvari og álagningu fasteignagjalda í 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins á árinu 2009. Útsvar hækkar í flestum sveitarfélögum um 0,25 prósentustig á milli ára úr 13,03% í 13,28%.

Af þeim gjöldum sem innheimt eru með fasteignagjöldum, hækka sorphirðugjöld mest frá fyrra ári. Sorphirðan hækkar í flestum sveitarfélögunum, en mest hækkun er í Skagafirði þar sem gjaldið hækkar um 50% á milli ára og á Akureyri og Akranesi þar sem hækkunin nemur 35%.

Þá kemur fram að ellefu af þeim 15 sveitarfélögum sem skoðuð voru, innheimta nú hámarks leyfilegt útsvar, 13,28% og hækkar útsvar víðast hvar um 0,25 prósentustig frá fyrra ári.

Í Reykjavík og Mosfellsbæ er útsvarið 13,03%, í Garðabæ 12,46% og á Seltjarnarnesi 12,1%. Mest hækkun á útsvari á milli ára er í Reykjanesbæ sem hækkar útsvarsprósentuna um 0,58 úr 12,7% í 13,28%.

Sjá nánar vef ASÍ.