Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, mun í dag leggja fram við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar 2019 tillögur sem miða að því að lækka álögur á heimilin í borginni.

Ólafur Stephensen, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku að sveitarfélögin, þá einkum Reykjavíkurborg, gerðu ekkert til þess að liðka fyrir komandi kjaraviðræðum.

„Við munum leggja til lækkun útsvars og viðbótarafslátt af fasteignasköttum eldri borgara og öryrkja. Auk þess munum við leggja til lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði enda mun lækkun á þeim skatti minnka hættu á verðhækkunum á þjónustu og húsaleigu svo dæmi séu tekin,“ segir Eyþór Arnalds.

Hann segir að þessar tillögur ættu að vera framlag borgarinnar í komandi kjaraviðræðum enda segir Eyþór Reykjavíkurborg ekki geta skorast undan þeirri ábyrgð að taka þátt í að bæta kjör borgarbúa.

„Útsvarslækkun á að vera framlag Reykjavíkurborgar í komandi kjaraviðræðum. Launafólk á mikið undir því að skattar lækki nú í stað þess að höfrungahlaupið fari af stað með verðbólgu. Borgin á að leggja áherslu á að bæta kaupmátt Reykvíkinga með ábyrgum hætti og hætta að taka meira en nágrannasveitarfélögin af launum fólksins í borginni,“ segir Eyþór Arnalds.