Mjög misjafnt er hversu miklar útsvarstekjur sveitarfélögin fá. Í heildina nam nettó útsvar sveitarfélaganna allra um 130,4 milljörðum króna í fyrra. Við það bættust síðan 17,7 milljarðar frá jöfnunarsjóði og nam álagt útsvar því 148 milljörðum samkvæmt álagningarskrá. Árið 2012 námu nettó útsvarstekjur sveitarfélaganna 122,7 milljörðum króna og hækkuðu þær því um 7,7 milljarða milli ára, eða um 6,3%.

Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að hækkunina megi rekja til fólksfjölgunar, launahækkana og verðbólgu.

Útsvarsstofn sveitarfélaganna nam 1.026,4 milljörðum króna í fyrra. Eðlilega er stofninn langhæstur í Reykjavík, því þar búa langflestir eða 121 þúsund manns. Útsvarsstofninn í borginni nam 389,2 milljörðum króna, eða næstum 40% af heildinni, og álagt nettó útsvar 49,7 milljörðum. Næst fjölmennasta sveitarfélagið er Kópavogur með ríflega 32 þúsund íbúa. Útsvarsstofninn þar nam 106,3 milljörðum og álagt nettó útsvar um 13,6 milljörðum króna.

Þó að Reykjavík sé með langhæstu útsvarstekjurnar í heildina er borgin ekki nema í 14. sæti þegar nettó útsvarstekjur eru reiknaðar á hvern íbúa eða 410 þúsund krónur. Þegar talað er um nettó er framlag jöfnunarsjóðs ekki tekið með í reikninginn. Sé framlag jöfnunarsjóðs haft með breytist staða borgarinnar reyndar ekkert, hún er áfram í 14. sæti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .