Gengi á hlutabréfum Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls, hefur hrunið undanfarna mánuði. Frá því í lok nóvember á síðasta ári hefur gengið lækkað úr 31,10 bandaríkjadölum á hlut, þegar best lét, niður í 5,18 dali á hlut í kjölfar árshlutauppgjörs félagsins sem var kynnt þann 6. ágúst síðastliðinn. Gengi bréfanna er, þegar þetta er skrifað, um 5,99 dalir á hlut. Verðmæti félagsins er því um 540 milljónir dala í dag, miðað við núverandi gengi, borið saman við rúma 2,9 milljarða dala í lok nóvember.

„Það þarf varla að taka fram að við erum að fara í gegnum mjög erfitt tímabil í geiranum um þessar mundir,“ sagði Michael A. Bless, forstjóri félagsins í fjárfestakynningu sem var haldin í kjölfar seinasta árshlutauppgjörs.

Verð á hlutabréfum Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls.
Verð á hlutabréfum Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls.
© Jóhannes Stefánsson (VB MYND/JS)

Á öðrum ársfjórðungi þessa árs tapaði Century Aluminium 33,9 milljónum bandaríkjadala. Í fyrra skilaði félagið hagnaði um 18,7 milljónum dala á sama tímabili. Það er þrátt fyrir að sala félagsins á áli hafi aukist um 523,5 milljónir dala á milli þessara tímabila.

Álverð hefur lækkað hratt

Í kynningu Bless kemur fram skýringin á þessum neikvæða viðsnúningi. Verð á áli hefur lækkað hraðar og meira en félagið gerði ráð fyrir. Hann segir mikilli framboðsaukningu um að kenna, einkum vegna álframleiðslu í Kína, en þarlendir framleiðendur hafa um 50% markaðshlutdeild. „Það eru mjög skýr merki um að verið sé að fara á svig við reglur, jafnvel lög,“ segir Bless. Hegðun kínverskra álframleiðenda kalli á afsökunarbeiðni af þeirra hálfu en hún setji verulegt strik í reikninginn fyrir álframleiðendur víða um heim.

Staðgreiðsluverð á áli í Málmkauphöll Lundúna.
Staðgreiðsluverð á áli í Málmkauphöll Lundúna.
© Jóhannes Stefánsson (VB MYND/JS)

Sé litið til þróunar á staðgreiðsluverði á áli í Málmkauphöll Lundúna má sjá að í upphafi árs seldist tonn af áli á 1.821,25 bandaríkjadali. Verðið lækkaði á fyrri hluta árs en hækkaði síðan skarpt í lok apríl og var 1.918,50 dalir á tonnið í byrjun maí. Frá þeim tíma hefur verðið hins vegar verið á hraðri niðurleið og tonnið var á 1.574 dali fyrir hvert tonn í gær. Ljóst er að verðlækkunin hefur bæði verið mikil og hröð, sem hefur mikið að segja um hríðlækkandi gengi Century Aluminium.

Gætu þurft að loka víðar

Bless víkur að áhrifum af þessari miklu verðlækkun, og bendir á að félagið hafi þurft að loka álverksmiðju félagsins í Ravenswood í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. Um 650 manns störfuðu í verksmiðjunni þegar starfsemi í henni var sett í hlé árið 2009. Century gerði tilraunir til að semja um sérstakan afslátt af raforkuverði til að rekstur á verskmiðjunni gæti farið af stað aftur, en það gekk ekki eftir. Þá hefur framleiðsla félagsins í Hawesville álverinu í Kentucky verði skert niður í 80% af framleiðslugetu.

Í kynningu sinni fer Bless yfir hvernig hafi verið brugðist við, m.a. með niðurskurði um 20 milljónir dollara á ári á rekstrarkostnaði. Hann ýjar að því að félagið gæti þurft að grípa til frekari aðgerða. „Á þessu stigi höfum við ekki lokað á neinu svæði eða hætt alfarið við neitt verkefni, þessi niðurskurður gengur þvert yfir alla. Að sjálfsögðu gæti eitthvað slíkt verið nauðsynlegt, eftir því hverjar markaðsaðstæður verða þegar fram líða stundir," segir hann í kynningunni.

Rís álver í Helguvík?

Eitt af þeim verkefnum sem hefur frá árinu 2005 verið á teikniborði dótturfélagsins, Norðuráls, er álver í Helguvík. Verð á áli hefur augljós áhrif á ákvörðun um hvort ný álver séu reist.

Illdeilur hafa jafnframt staðið yfir í talsverðan tíma á milli HS Orku og Norðuráls. Fyrrnefnda félagið segir að Norðurál haldi sér í gíslingu með samningi um raforku sem HS Orka hefur skuldbundið sig til að veita álverinu. Hins vegar hafi ekki fengist staðfesting á því hvort álverið verði yfir höfuð byggt, og því hefur HS orka ekki ráðist í frekari beislun raforku á Reykjanesinu. Þá hafa skilyrði um vinnslu orkunnar í virkjanaleyfi Orkustofnunar sett félaginu hömlur.

Síðarnefnda félagið segir aftur á móti að ástæða þess að bygging álvers í Helguvík sé ekki farin af stað sé vegna þess að HS Orka hafi ekki staðfest að það sé tilbúið til að afhenda raforkuna. Fyrir vikið er uppi pattstaða í málinu, en eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í þessum mánuði stendur ríflega tveggja milljarða króna túrbína inni í Reykjanesvirkjun og safnar ryki.

Í viðtali í Viðskiptablaðinu þann 20. júní 2013 sagði Júlíus Jónsson, þáverandi forstjóri HS Orku, að verð á áli þurfi að vera hærra en á bilinu 1.800 til 1.900 bandaríkjadalir á tonnið til að álver í Helguvík geti reynst arðbært. Verð á áli er, eins og fyrr segir, mun lægra í dag. Ef Júlíus Jónasson hefur rétt fyrir sér verður að telja ólíklegt að Norðurál haldi af stað með byggingu álvers á svæðinu á meðan svo mikil óvissa ríkir um verð og markaðsaðstæður á álmörkuðum.

Ekki náðist í forsvarsmenn Norðuráls við vinnslu úttektarinnar.