Eignir sem skilanefndirnar sýsla með hafa vaxið um hundruð milljarða frá hruni. Þrátt fyrir eitt mesta efnahagshrun sem dæmi eru um í sögunni eru skilanefndir hinna föllnu banka að ávaxta eignir sem eru virði yfir 3.500 milljarða króna. Mikil vinna er framundan við að ljúka afstöðutöku til krafna sem gerðar hafa verið í bú bankanna.

Fall stóru íslensku viðskiptabankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, í október 2008 hefur reynst öllu íslensku samfélagi dýrt. Enn er verið að glíma við eftirköst þess. Vinnan sem á sér stað í eftirstöðvum gömlu bankanna, sem allir eru í greiðslustöðvun, er mikil að umfangi þó um margt fari hún ekki hátt. Heildareignir bankanna þriggja nema nú rúmlega 3.500 milljörðum króna. Þar af eru eignir Kaupþings meira en 43% af heildareignum, Landsbankinn tæplega 33% og Glitnir um 23%. Til samanburðar má nefna að heildareignir endurreistu bankanna þriggja Íslandsbanka, Landsbankans og Arion banka, sem urðu til á grunni innlendra eigna hinna föllnu banka, nema rúmlega 2.500 milljörðum króna miðað við ársreikninga þeirra fyrir 2009.

Handbært fé hinna föllnu banka, þ.e. reiðufé í ýmsum myntum og ríkisskuldabréf, eru yfir 500 milljarðar. Mest af því er geymt inni á reikningum erlendra banka en einnig í Seðlabanka Íslands og í ríkisskuldabréfum eins og áður sagði.

Flókin eignaumsýsla

Allt frá hruni bankanna hafa skilanefndirnar kappkostað að vernda eignir, þar helst útlán, fremur en að selja þær á lágu verði. Skömmu eftir hrunið var töluverður þrýstingur á sölu eigna, ekki síst í ljósi óvissunnar á fjármálamörkuðum sem var mikil alveg fram á mitt ár 2009. Frá þeim tíma hefur verið lagt mikið upp úr því að vernda eignir eins og kostur er og hefur sú vinna gengið vonum framar, samkvæmt upplýsingum sem komið hafa fram síðustu kröfuhafafundum bankanna þriggja. Óljóst er enn hversu langan tíma það mun taka að klára slitaferli bankanna en stefnan á öllum stöðum er að fara með þá í gegnum nauðasamningsferli.

Landsbankinn er þó í nokkurri sérstöðu þar sem þar er kappkostað að endurheimta eignir upp í forgangskröfur eingöngu, sem eru að stórum hluta komnar vegna innstæðna í Hollandi og Bretlandi. Innstæðutryggingasjóður í Bretlandi og Hollandi á nú kröfur í bú Landsbankans. Á fyrri helmingi þessa árs jukust endurheimtur á eignum Landsbankans um 64 milljarða króna í erlendri mynt en vegna styrkingar krónunnar er endurheimtuhlutfall svipað og áður var, eða um 89% af forgangskröfum. Íslensk gjaldþrotalöggjöf gerir ráð fyrir að gert sé upp í krónum en ekki í erlendum myntum.