Árið 1997 skipaði þáverandi Björn Bjarnason menntamálaráðherra nefnd til að gera úttekt á hugmyndum um byggingu tónlistarhúss. Kynntar voru þrjár hugmyndir um staðarval tónlistarhúss, þ.e. í Laugardal, við Hótel Sögu og í Öskjuhlíð tengt Perlunni. Auk þessara hugmynda var einnig lagt mat á tvo staði í miðborginni, þ.e. við Faxagötu og Tryggvagötu. Gert var ráð fyrir tveim sölum í húsinu 1.300 og 400 manna en ekki var gert ráð fyrir óperuflutningi í húsinu. Kostnaður var áætlaður að lágmarki 1.550 milljónir króna á þávirði (rúmir 3 milljarðar á núvirði). Gert var ráð fyrir að heildarfjöldi gesta á ári yrði 158.000.

Niðurstaða nefndarinnar var að tónlistarhús eitt og sér gæti aldrei staðið undir fjármagnskostnaði og myndi tapa 15,7 milljónum á ári á þáverandi verðlagi og miðað við 75 milljóna króna árlegan rekstarkostnað (um 152 milljónir kr. að núvirði). Áætlanir bentu þó til að tónlistarhús tengt ráðstefnuaðstöðu gæti skilað „nokkrum hagnaði án afskrifta og fjármagnsgjalda."

Úttekt VSÓ frá 1998

Verkfræðistofan VSÓ gerði í desember 1998 úttekt á  rekstrar- og kostnaðarforsendum 13.683 fermetra tónlistarhúss sem byggt yrði í Öskjuhlíð í Reykjavík. Stofnkostnaður tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar sem byggð yrðu saman var það árið áætlaður 3.665 milljónir króna. Gert var ráð fyrir að heildarfjöldi gesta í stærri sal hússins yrði 215.670 og 105.815 í minni salnum, eða samtals 321.485 gestir. Þar af var gert ráð fyrir að árlegur fjöldi ráðstefnugesta yrði 13.500. Þar eru 163.485 fleiri gestir en nefnd menntamálaráðherra hafði áætlað ári áður. Þarfagreining VSÓ miðaði við samtals 280.270 gesti. Heildartekjur voru áætlaðar 330 milljónir króna og rekstrarhagnaður án afskrifta og fjármagnskostnaðar um 47 milljónir króna. "Rekstur mun því ekki standa undir nema litlum hluta stofnkostnaðar og miðað við áætlanir yrði það innan við 20%," segir í skýrslu VSÓ. Nú er verið að byggja tvöfalt stærra hús og væntanlega með mun meiri rekstarkostnaði.

Sjá úttekt í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins