Eins og fram kom á vef Viðskiptablaðsins í gær er nú gífurlegt fjármagn til á innlánsreikningum hér á landi eða rúmlega 1.660 milljarðar króna.

Gera má ráð fyrir því að eigendur þessa fjármagns leiti nú leiða til að ávaxta fé sitt en þá er stóra spurningin; hvar er best er að geyma – og um leið ávaxta – peninginn?

Samkvæmt viðmælendum Viðskiptablaðsins í sérblaði um fjármál einstaklinga hafa innlánsreikningar verið besti „geymslustaður“ peninga síðustu misseri, þá sérstaklega í ljósi hárra stýrivaxta hér á landi. Þannig kemur fram að hluta mars var 27% árleg raunávöxtun á óverðtryggðum innlánsreikningum en ljóst má vera að með lækkandi stýrivöxtum verða raunvextirnir minni og fjármagnseigendur og aðrir fjárfestar fara að hugsa sér til hreyfings.

En hvert horfa fjárfestar þá? Viðmælendur Viðskiptablaðsins telja sumir hverjir að enn um sinn muni fjármagn að miklu leyti liggja á innlánsreikningum en fjárfestar horfi þó í auknum mæli til ríkisskuldabréfa og annarra sjóða sem í boði verða.

Þeir eru þó sammála um að fjárfestar leitist eftir öryggi en jafnframt góðri ávöxtun. Ekki er alltaf víst að þetta tvennt fari saman.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í sérblaði um fjármál einstaklinga í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .