Dómur Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar hefur þegar valdið falli Avant og Askar Capital. SP-fjármögnun býr að því að eignir fyrirtækisins hafa þegar verið færðar niður að hluta.

„Við höfum teiknað upp ýmsar sviðsmyndir er varða gengistryggð útlán bankans. Í mínum huga er það alveg ljóst að bankinn ræður við lækkun á höfuðstóli þessara lána,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sem jafnframt er eigandi fjármögnunarfyrirtækisins SP-fjármögnun.

Steinþór segir ennfremur að um margt sé óljóst enn hversu víðtæk áhrif dómurinn getur haft á Landsbankann. „Hins vegar verður að sjá hvernig vextirnir verða endurreiknaðir og einnig hversu víðtæk áhrifin af þessum dómum yfirhöfuð verða. Það erum margt óljóst í þeim efnum.“

Staða fjármögnunarfyrirtækjanna Avant, SP-fjármögnunar og Lýsingar er misjöfn sé horft til þess hvaða áhrif dómur Hæstaréttar getur haft á stöðu fyrirtækjanna. Fjármálaeftirlitið (FME) skipaði bráðabirgðastjórn yfir fjármögnunarfyrirtækið Avant á þriðjudag. Móðurfélag þess, Askar Capital, var tekið til slitameðferðar sama dag. Ástæðan fyrir falli þessara fyrirtækja er öðru fremur dómur Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar lána í krónum.

Eignir Avant, sem metnar voru á 23 milljarða í maí, eru nú í besta falli virði 13 milljarða en í versta falli 9 milljarða, samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu. Það fer eftir því við hvaða vexti verður miðað við þegar virði lánasamninganna verður endurreiknað.

-Nánar í Viðskiptablaðinu