Miklar breytingar hafa verið gerðar á skattkerfinu sl. 18 mánuði eða svo eða frá því að núverandi stjórnarflokkar tóku við völdum í byrjun febrúar á síðasta ári. Á þeim tíma hefur tvisvar verið ráðist í stórfelldar aðgerðir til þess að hækka skatta hér á landi og nú liggur fyrir Alþingi þriðja atrennan að skattahækkunum. Ný skattalög munu, ef þau verða samþykkt, taka gildi 1. janúar 2011.

Áætlað er að nýir og hærri skattar skili ríkissjóði um 8 milljörðum króna í aukatekjur á næsta ári sem bætist þá ofan á um 55 milljarða króna skattahækkanir sl. 18 mánaða. Því til viðbótar er gert ráð fyrir að greiðslur úr séreignasparnaði landsmanna skili ríkinu um 3 milljörðum króna aukalega á næsta ári, en hæpið er að tala um það sem aukna skattheimtu.

Þá er ótalinn tekjuauki af breytingum á virðisaukaskatti og tekjuskatti þó þar sé ekkert í hendi.

Athygli vekur að í nýlegri skýrslu Viðskiptaráðs bendir allt til þess að auknir og hærri skattar séu ekki að skila sér í tekjum til ríkissjóðs sé horft til greiðsluafkomu ríkissjóðs fyrstu sex mánuði ársins. Eini skatturinn sem skilar sér í takt við væntingar fjárheimtu ríkisins er virðisaukaskattur sem er yfir áætlun.

_____________________________

Úttekt á breytingum á skattkerfinu er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .