Umsækjendur um útborgun úr séreignarsjóðum hafa óskað eftir útgreiðslu sem nemur samtals 12,5 milljörðum króna sem koma til útborgunar á yfirstandandi ári, samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra. Úttekt séreignarsparnaðar hefur verið mun meiri á þessu ári en stjórnvöld höfðu ráðgert. Morgunblaðið greinir frá málinu.

Frá því að launafólki var fyrst heimilað að taka út séreignarsparnað til þess að mæta brýnum fjárhagsvanda árið 2009 til dagsins í dag hefur verið sótt um útgreiðslu sparnaðar sem nemur rúmum 101 milljarði króna. Á næsta ári verða 432 milljónir til viðbótar greiddar út miðað við stöðu umsókna í dag.

Síðustu áramót nam allur séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða landsins 260 milljörðum króna en 152 milljarðar voru í vörslu annarra lögaðila.