Danir eru enn að vinna sig út úr efnahagskreppunni. Innviðir dansks efnahagslífs eru sterkir en þó eru vandamálin líka augljós. Skuldsetning vegna húsnæðiskaupa á síðustu árum er mikil og óvissa um gjaldeyrismál er viðvarandi.

Danir glíma við eftirköst þess að hafa aðstoðað banka sína í hamförunum haustið 2008 eins og flest ríki Evrópu. Þó hefur kostnaði af lánveitingum Seðlabankans þar í landi ekki verið velt inn í ríkisbókhaldið eins og í Bretlandi og Írlandi. Ríkisábyrgð á fjármálastofnunum í landinu, sem sett var á þegar millibankamarkaður í Evrópu hrundi saman í kjölfar falls Lehman Brothers 15. september 2008, hefur að mestu verið felld úr gildi.

Vonir standa til þess að fjármálakerfið sé komið í gegnum brimskaflinn og að bankar muni ráða við að greiða til baka lán frá seðlabankanum án frekari vandræða. Þó eru blikur á lofti, ekki síst þar sem gjaldþrotum hefur fjölgað ört í Danmörku á þessu ári. Þau eru um þrefalt fleiri nú en fyrir tveimur árum. Það þýðir eignatap fyrir fjármálastofnanir með tilheyrandi skaða fyrir fjárhag þeirra og vegna lána til þeirra frá seðlabankanum gæti almenningur þurft að súpa af því seyðið.

Sterkir innviðir

Danskur efnahagur byggir helst á sterkum landbúnaði, iðnaði ýmiss konar, nýsköpun og þjónustu. Náttúrulegar auðlindir eru litlar í samanburði við nágrannana í norðri, Norðmenn. En segja má að auðlind Danmerkur sé ekki síst sterkir innviðir sem byggst hafa upp á löngum tíma. Þó að margir Íslendingar hafi þá mynd af Dönum að þeir séu fremur rólegir í tíðinni – jafnvel latir ef því er að skipta – þá má lesa annað út úr dönskum hagtölum. Framleiðni á hvern íbúa er há í alþjóðlegum samanburði og útflutningur hefur að meðaltali verið um 12,5% meiri en innflutningur það sem af er þessu ári. Árið 2008 féll útflutningur mikið en þó ekki svo mikið að vöruskipti yrðu neikvæð, það er innflutningur meiri en útflutningur. Á fyrrnefndum mælikvarða stendur efnahagur Dana traustum fótum.

Svifaseint kerfi

En það er ekki allt dans á rósum þrátt fyrir sterka innviði í efnahagnum. Skuldsetning vegna fasteignakaupa er umfangsmikið vandamál, ekki síst á stærstu þéttbýlissvæðunum. Lánveitingar fyrir 95% af markaðsvirði fasteigna hafa tíðkast lengi í landinu. Þegar halla tók undan fæti á fasteignamarkaðnum í Danmörku eins og víða annars staðar, í byrjun árs 2007, blasti við mikill vandi, ekki síst í Kaupmannahöfn. Fólk hefur keypt eignir sem hafa fallið í verði en situr uppi með skuldir sem eru í mörgum tilvikum meiri en eignirnar. Með öðrum orðum; Danir eru að glíma við svipuð vandamál og Íslendingar þótt vandamálið hér á landi sé dýpra og stærra í hlutfalli við íbúafjölda en í Danmörku. Auk þess eru kjör á fasteignalánum í Danmörku mun betri en hér á landi og líkur til þess að fólk ráði við að borga af lánum eru betri en hér. Vextir taka mið af vöxtum á evrusvæðinu, þar sem gengi dönsku krónunnar sveiflast með evrunni, á meðan háir vextir auk verðbóta tilheyra langstærstum hluta fasteignalána hér á landi.

Nánar er fjallað um málið nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins . Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .