Hinn mjög svo fullyrðingasami sjónvarpsstjóri Ingvi Hrafn Jónsson sagði fyrr í vikunni að honum liði illa inn í sér vegna skuldbindinga Icesave-samningsins um leið og hann þrýsti á hjartastað og horfði framan í áhorfendur sína.

Ingvi Hrafn studdist fremur við tilfinningu en tölur en þeir sem vilja tölur geta farið á vefsíðuna www. iceslave.is þar sem skuldin er uppreiknuð jafnóðum með forsendum sem notendur vefsins velja sjálfir.

Íslendingum stendur auðvitað ekki á sama og spjallþræðir og síður blaðanna loga af skoðanadálkum. Þeir sem eru á móti samningnum eru háværari en hinir og hver er svo sem ekki á móti slíkum samningi?

Vandasamara er að meta hann með skynsamlegum hætti og augljóst er að afstaðan til hans er orðið pólitískt hitamál.

Dýrasti aðgöngumiðinn

Þegar pólitíkin er skoðuð verður einnig að skoðast að málið blandast inn í hitt stóra deilumálið á Íslandi í dag, nefnilega aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

„Dýrasti aðgöngumiðinn að Evrópusambandinu sem um getur,“ sagði sjálfstæðiskona sem talað var við og bætti við: „Sú erlenda valdsþjónkun sem samningurinn um Icesave ber með sér verður ekki skilinn á annan hátt en þann, að þarna er verið að vernda einhverskonar aðildarhagsmuni að ESB. Nálgun stjórnvalda, eins og ég skil þessa fléttu alla, var að láta undan þessum gríðarlega þrýstingi Icesave þolandanna gegn stuðningi við inngöngu í ESB og (vonandi) e.k. efnahagsaðstoð þegar þangað er komið inn.“

Þannig halda margir í þá veiku von að eitthvað meira leynist þarna en gert hefur verið opinbert. Með því að bjarga innstæðukerfinu í Evrópu verði Íslendingum rétt hjálparhönd síðar! Hvernig samningsgerðin fléttaðist inn önnur utanríkismál Íslendinga er ekki að fullu upplýst.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í ítarlegri úttekt í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .