Ólafur Stephensen
Ólafur Stephensen
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir nauðsynlegt að unnin verði óháð úttekt á þeirri starfsemi Íslandspósts sem er í samkeppnisrekstri við einkaaðila að því er Fréttablaðið segir frá.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í haust hafði Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins sem er formaður fjárlaganefndar Alþingis, sagt að slíkt kæmi til greina.

Þá lá fyrir beiðni frá ríkisfyrirtækinu að fá hálfs milljarðs króna lán vegna rekstrarvanda, en nú biður félagið um 1,5 milljarða króna frá ríkissjóði. Tillagan um lánveitinguna lá fyrir við aðra umræðu um fjárlög en var dregin til baka áður en gengið var til atkvæða.

Segja minnsta hlutann vegna fjárfestinga í samkeppnisrekstri

Fyrirtækið hefur gefið þær skýringar á lánaþörfinni að samdráttur hafi verið í þeirri þjónustu sem lýtur að einkarétti félagsins á bréfpósti, auk meiri kostnaðar. Félagið hefur lítið gefið upp um að fjármagn hafi tapast í rekstri dótturfélaga í samkeppnisrekstri eða kostnaði af fjárfestingum í vörudreifingu.

Fjárlaganefnd hefur óskað eftir sundurliðun á fjárfestingum fyrirtækisins í samkeppnishluta rekstrarins árin 2016 og 2017, en fyrirtækið svarar því til að það sé minnsti hluti fjárfestinga þessara ára. Fyrirtækið er í ýmis konar samkeppnisrekstri t.a.m. við dreifingu á auglýsingablöðum og bæklingum auk prentþjónustu og smávöru.

Hins vegar hefur Íslandspóstur frá árinu 2006 varið rúmlega 5,8 milljörðum króna í ýmis konar fasteignir, lóðir, áhöld, tæki og bifreiðar að því er Fréttablaðið greinir frá. Fjárfestingarnar komu í kjölfar ákvörðunar árið 2005 og 2006 að stækka hlutdeild fyrirtækisins á flutningamarkaði, en langstærsti hluti fjárfestinganna er vegna nýrra tækja og bifreiða sem nýtist til þess.

Á sama tíma hefur félagið selt eignir fyrir rúmlega 600 milljónir, en allar tölurnar koma úr ársskýrslum félagsins og eru á verðlagi hvers árs. Þar af hefur ríkisfyrirtækið á síðustu tveimur árum fjárfest fyrir um milljarð króna nettó, en þar til viðbótar fóru að minnsta kosti 700 milljónir í stækkun flutningamiðstöðvar félagsins að Stórhöfða.

Fjölgun starfsmanna frá árinu 2014 nemur tæplega 90 stöðugildum, þar af rúmlega 40 milli áranna 2016 og 2017, og hefur launakostnaður félagsins hækkað um 1,4 milljarða króna. Í athugasemdum Pósts- og fjarskiptastofnunar við skýrslu um rekstrarskilyrði Póstsins er bent á að um 100 milljónir hafi tapast vegna lánveitinga til dótturfélaga sem eru í samkeppnisrekstri. Þar með talið hafi verið tap á Samskiptum og ePósti.

„Starfsemi sem fellur undir samkeppni er um sextíu prósent af starfsemi félagsins eða sem nemur veltu upp á um 3,9 milljarða á ári, auk fjárfestinga sem nema milljörðum króna sem bundnar eru í viðkomandi verkefni,“ segir í athugasemdum stofnunarinnar sem bendir á að hún hafi ekki eftirlit með gjaldskrám þessa hluta reksturs Póstsins.

Selja sælgæti og bækur

Ólafur segir að ef ráðast eigi í úttekt verði það að vera óháður aðili því bæði telji Póst- og fjarskiptastofnun það ekki hlutverk sitt og að Ríkisendurskoðun sé vanhæf þar sem stofnunin endurskoði reikninga Íslandspósts.

„Okkur finnst nauðsynlegt að áður en Alþingi ákveður hvort þessir peningar verða lánaðir eða lagðir í fyrirtækið, því það er alls óvíst að hægt sé að greiða þá til baka, liggi fyrir hvernig ÍSP hefur hagað sér í samkeppnisrekstri og hve miklu fyrirtækið hefur tapað á þeim ævintýrum sínum,“ segir Ólafur.

Ólafur bendir á að dótturfyrirtæki Íslandspósts vinni að hugbúnaðargerð og sé í prentþjónustu, fyrir utan að félagið sé með frakt-, flutninga- og sendlaþjónustu. Auk þess selji fyrirtækið sælgæti, bækur og ýmis konar minjavöru.

„Það er mjög áleitin spurning hvort eigendastefnu ríkisins vegna opinberra hlutafélaga sé ekki ábótavant. Þar segir að stjórnir slíkra félaga skuli leitast við að efla samkeppni en stjórn ÍSP virðist misskilja það sem svo að fyrirtækið skuli fara í samkeppni við allt sem hreyfist.“

Hér má lesa fleiri fréttir um málefni Íslandspósts:

Hér má lesa pistla um málefni Íslandspósts: