Í skýrslu Bankasýslu ríkisins frá árinu 2011 voru lagðar fram fjórar leiðir að framtíðarkerfi íslenska sparisjóðakerfisins. Fyrsta leiðin fól í sér nánast óbreytt ástand þar sem sjóðirnar myndu áfram starfa sem sjálfstæðar einingar en með samstarf á vissum sviðum. Leið tvö snérist um að sameina sem flesta sjóði í einn stóran sem rekinn yrði sem eitt fyrirtæki á landsvísu. Þriðja leiðin var svo að eignarhlutur ríkisins yrði seldur til þess viðskiptabanka sem mesta hagræðingu sæi í sameiningu við viðkomandi sjóð. Fjórða leiðin snérist um að skoða sameiningu allra sparisjóðanna við einn af viðskiptabönkunum.

Í framhaldinu var ákveðið að haldinn yrði fundur allra sparisjóða á landinu. Á fundinum var svo ákveðið að stofna starfshóp sem vega skyldi og meta þrjár leiðir fyrir sparisjóðakerfið. Þ.e. að sparisjóðirnir myndu starfa áfram á óbreyttan hátt, sameinaðir í þrjá til fimm landshlutabundna sparisjóði eða að þeir yrðu allir sameinaðir í einn sjóð. Önnur leiðin þótti vænlegust, þ.e. að sameina sjóðina í þrjá til fimm landshlutabundna sjóði. Eftir að ákveðið var að sparisjóðirnir skyldu athuga hvort þessi lausn væri möguleg virðist sem þrír sparisjóðir, Afl sparisjóður, Sparisjóður Ólafsfjarðar og Sparisjóður Svarfdæla, séu á hraðleið inn í Arion banka og Landsbankann. Því eru einungis um sjö sjóðir eftir á landinu sem ekki hefur verið ákveðið hver næstu skref eru varðandi framtíð þeirra.

Á Alþingi á miðvikudaginn var samþykkt frumvarp um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Þar er opnað fyrir að sparisjóðir geti breytt rekstrarformi sínu í hlutafélag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.