Úttektarheimildir kreditkorta verða yfirfarnar að beiðni Seðlabankans að því er kemur fram í tilkynningu frá Valitor, rekstraraðila Vísa. Þar segir að þetta hafi ekki í för með sér skerðingu á notkun, en ónýttar heimildir verða lækkaðar. "Breytingar  á heimild hafa  lítil  áhrif á notkun korta heima eða erlendis nema um óvenju mikla tímabundna notkun sé að ræða  og tekur einungis til innan við helmings allra korthafa," segir í tilkynningu.

Aðgerðin er útfærð  þannig að korthafar sem ekki hafa nýtt sér heimildina til fulls til þessa, mega búast við því að núverandi heimild verði færð til samræmis við raunnotkun eða  í tvöfalda meðal mánaðar notkun þessa árs, á hvert kort.  Þetta þýðir t.d. að í tilviki korthafa sem hingað til hefur haft 400.000 kr. í úttektarheimild en hefur að meðaltali nýtt sér 180.000 kr. á mánuði, að ný heimild hans mun nema 360.000 kr. á mánuði. Hafi korthafi haft 400.000 kr. í úttektarheimild en hefur að meðaltali nýtt sér 220.000 kr. á mánuði, verður heimild hans óbreytt.  Þeim korthöfum sem telja sig þurfa á hærri heimild  að halda er bent á að hafa samband við viðskiptabanka sinn eins og fyrr.

Vegna þeirra aðstæðna og óvissu sem skapast hefur hjá viðskiptabönkum á Íslandi  hefur Valitor orðið við beiðni Seðlabankans um að yfirfara úttektarheimildir VISA kreditkorthafa með það að markmiði að lækka heimildirnar til samræmis við notkun viðkomandi korthafa.  Sambærileg yfirferð er í gangi hjá öðrum kortafyrirtækjum. Hingað til hafa viðskiptabankarnir verið ábyrgir fyrir úttektum og úttektarheimildum, en nú  hefur sú ábyrgð færst yfir á Seðlabankann með setningu neyðarlaganna 7. október sl. Úttektarheimildir korthafa voru meðhöndlaðar sem skuldbinding í  bókhaldi hvers útgáfubanka og hækkuðu því heildarskuldastöðu viðkomandi banka segir í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur að korthafar geta séð nýja heimild á netyfirliti sínu frá  og Valitor mun senda öllum  VISA korthöfum bréf varðandi þetta á næstu dögum.  Valitor vill koma því á framfæri að notkun VISA korta hér heima og erlendis gengur eðlilega.