Einkahlutafélagið X-2121, sem áður hét Útvarp Saga, var úrskurðað gjaldþrota þann 10. desember síðastliðinn. Kjarninn greinir frá þessu.

Þar kemur fram að nafni félagsins hafi verið breytt þann 22. september síðastliðinn og Arnþrúður Karlsdóttir, eigandi félagsins, hafi ritað undir nafnabreytinguna.

Úrskurðurinn kemur tæpu ári eftir að útvarpsstöðin var dæmd til þess að greiða Sigurði G. Tómassyni, fyrrverandi útvarpsmanni á stöðinni, 745 þúsund krónur í vangoldin laun auk málskostnaðar. Lét Arnþrúður þá hafa eftir sér að útvarpsstöðin stefndi í þrot vegna málsins.

Í samtali við Kjarnann sagði Arnþrúður að rekstur Útvarps Sögu hefði verið seldur öðru félagi í febrúar, en vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti.